Ný reglugerð um mengunarvarnir
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett nýja reglugerð um varnir gegn mengun frá skipum, sem byggir á og innleiðir ákvæði MARPOL-samningsins, nánar tiltekið fjögurra viðauka hans. Markmið hennar er að vernda hafið og takmarka losun mengandi efna frá skipum í andrúmsloftið og í sjó.
Reglugerðin kemur í stað þriggja reglugerða frá 1995-2004, sem felldar eru úr gildi. Með nýrri reglugerð er hlutverk helstu stofnana – Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands – varðandi mengun frá skipum tilgreint, nýlegum breytingum í alþjóðlegum reglum veitt gildi og kveðið skýrt á um hvernig þeim er framfylgt á Íslandi. Reglurnar ná til þátta á borð við móttöku í höfnum á úrgangi og farmleifum, eftirlit með mengunarvarnabúnaði skipa, útgáfu skírteina og skoðun skipa, móttöku tilkynninga um mengunaróhöpp, ráðstafanir vegna óheimillar losunar í hafið og eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland.
Umhverfisstofnun vann drög að reglugerðinni, sem var send til umsagnar til stofnana og hagsmunaaðila. Viðaukarnir fjórir í MARPOL, sem reglugerðin tekur til, fjalla um: varnir gegn olíumengun frá skipum; varnir af völdum eitraðra efna í fljótandi formi í farmgeymum skipa; varnir gegn mengun af völdum hættulegra efna sem flutt eru í pökkuðu formi; og um varnir gegn sorpmengun frá skipum. Viðaukar MARPOL eru tæknilegs eðlis og taka tíðum breytingum. Nauðsynlegt var að uppfæra reglur m.t.t. breytinga sem hafa orðið og einnig er í reglugerðinni búið í haginn fyrir framkvæmd breytinga og viðbóta á reglum MARPOL í framtíðinni.
MARPOL-samningurinn var gerður árið 1973 undir hatti Alþjóðasiglingastofnunarinnar (IMO) og var fyrsti hnattræni samningurinn um varnir gegn mengun. Sex viðaukar eru við samninginn og eru hluti af 21 samþykkt á vegum IMO sem tekur á umhverfismálum í tengslum við siglingar og starfsemi á hafi. Ísland er aðili að sumum þessara samþykkta og aðrar bíða fullgildingar. Meðal annars stendur til að innleiða og fullgilda á næstu mánuðum IV. og VI. viðauka MARPOL, sem fjalla um meðferð skólps annars vegar og loftmengun frá skipum hins vegar, á sama hátt og nú hefur verið gert varðandi þá fjóra viðauka sem Ísland er aðili að. Þrátt fyrir að Ísland hafi ekki fullgilt alla samninga undir hatti IMO er regluverk varðandi varnir gegn mengun frá skipum og starfsemi á sjó þó að mestu í samræmi við alþjóðlegar reglur, en Ísland innleiðir m.a. reglur þess efnis í gegn um EES-samninginn, sem byggja aftur á samþykktum IMO.