Erlend eignaraðild verði bönnuð
Íslendingar hafa sent fulltrúum færeyskra stjórnvalda ábendingar um að ekki standist sú grein í frumvarpi um málefni sjávarútvegsins þar í landi að erlendir aðilar sem eiga hlut í útgerð og fiskvinnslu í Færeyjum þurfi að losa um eign sína innan fjögurra ára.
Vísa Íslendingar þar til svonefnds Hoyvíkursamnings, fríverslunarsamnings milli Íslands og Færeyja, sem gerður var fyrir tólf árum og á að tryggja víðtækt viðskiptafrelsi milli landanna. Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag.
Farið verði yfir ábendingar
Takmarkanir á fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi eru þó undanþegnar í samningnum; eignarhlutur þeirra má ekki fara yfir þriðjung í hverju fyrirtæki. Frumvarpið gerir ráð fyrir að nú verði það ákvæði afnumið og lúta athugasemdir Íslendinga að því.
„Fiskveiðistjórnunarmál Færeyinga eru algjörlega þeirra. Við Íslendingar höfum hins vegar bent á að Hoyvíkursamningurinn fer ekki saman við frumvarpið sem nú liggur fyrir lögþingi Færeyinga. Við erum sannfærð um að farið verði vel og málefnalega yfir ábendingar okkar í því sambandi,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Frumvarpið færeyska gerir ráð fyrir víðtækri endurskipulagningu á sjávarútvegsmálum þar í landi; að stjórn veiða fari úr aflamarki í kvótasetningu og nokkur hluti veiðiheimilda fari á uppboðsmarkað.
Erlendir aðilar sem fjárfest hafa í sjávarútvegi í Færeyjum eru fyrst og fremst Íslendingar og Hollendingar, sem yrðu væntanlega að selja hluti sína nái frumvarpið óbreytt í gegn. Ef ekki telja kunnugir að slíku megi jafna við eignaupptöku. Í fjölmiðlum í Færeyjum hefur verið greint frá þungum áhyggjum Hollendinga í málinu – og sjónarmið Íslendinga hafa einnig komið fram.
Samstarfi væri lokið
Samherji er það íslenska fyrirtæki sem hefur helst tengst sjávarútvegi í Færeyjum. Það stóð að stofnun fyrirtækisins Framherja í Fuglafirði árið 1994 í samstarfi við heimamenn þar. Á vegum fyrirtækisins eru gerð út tvö uppsjávarskip og einn togari.
„Við höfum þarna farsællega starfað með færeysku fjölskyldufyrirtæki. Nái frumvarpið í gegn væri því samstarfi lokið,“ segir Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, sem segir Samherjamenn fylgjast vel með framvindu þessa máls í færeyska lögþinginu.