Kynnti breytingar á heildarlögum um kvótakerfið

Deila:

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti í hádeginu bráðabirgðaniðurstöður verkefnisins Auðlindarinnar okkar – stefna um sjávarútveg. Tillögurnar eru 60 talsins. Í grófum dráttum er lagt til að kvótakerfinu verði viðhaldið og að veiðigjald verði að miklu leyti óbreytt. Skoða á þó hvort hægt sé að leggja það á sem hlutfall af aflaverðmæti.

Sjá kynningu hér.

Lagt er til að sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni verði lögfest í stjórnarskrá.

Tillögurnar eru afurð fjögurra hópa sem Svandís skipaði til að greina áskoranir og tækifæri í sjávaútvegi í maí 2022.

Til stendur að leggja niður almennan byggðakvóta og einfalda löggjöf um fiskveiðistjórnun. Stuðla á að auknu gegnsæi og dreifðu eignarhaldi í sjávarútvegi. Veiðiheimildir sem áður voru í almenna byggðakvótakerfinu yrðu leigðar út. Þau verðmæti sem það myndi skapa, þrír til fjórir milljarðar króna, myndu renna til sveitarfélaga í sjávarbyggðum.

Til stendur að halda strandveiðum áfram en skýrar skuli kveða á um markmið, árangursmælingar og aðgengi til að ná betur fram upphaflegum markmiðum kerfisins. Fram kom í kynningunni að ekki væri einhugur um að halda ætti í strandveiðikerfið. Hluti hans taldi galla kerfisins of marga til að hægt væri að leggja til óbreytt vægi strandveiða en annar hluti taldi samfélagsleg og byggðaleg sjónarmið vega það þungt að rétt væri að viðhalda kerfinu með einhverjum lagfæringum

Í skýrslunni er að finna tillögur sem auka eiga gagnsæi um eignarhald og tengsl útgerða. Lagt er til að komið verði í veg fyrir að hægt sé að fara framhjá kvótaþakinu. Skilgreining á tengdum aðilum verði víkkuð og hvatt verður til dreifðara eignarhalds á sjávarútvegsfyrirtækjum.

Tillögurnar 60

  • A. Rannsóknir og nýsköpun
    Tillaga 1 — Efla hafrannsóknir og forgangsraða auknu fjármagni til hafrannsókna sem er ekki bein ráðgjöf um nýtingu nytjastofna
    Tillaga 2 — Skilja á milli ráðgjafar og rannsókna Hafrannsóknastofnunnar
    Tillaga 3 — Hvetja til aukinnar samvinnu rannsóknaraðila, háskóla og fyrirtækja í sjávarútvegi (nýtingaraðila)
    Tillaga 4 — Bæta upplýsingagjöf og almenna þekkingu um skattahagræði nýsköpunarfyrirtækja
    Tillaga 5 — Nýjar nýtingaleiðir í sjó fari í umhverfismat og vistkerfisnálgun beitt við ákvarðanatök
  • B. Verndarsvæði, veiðisvæði og veiðarfæri
    Tillaga 6 — Vinna heildstæða stefnu um verndun hafsvæða sem tekur til fleiri þátta en fiskveiðistjórnunar
    Tillaga 7 — Verndarmarkmið svæða í hafi skilgreind og svæðin stækkuð
    Tillaga 8 — Veiðisvæði verði eingöngu miðuð við tegund veiðarfæra, en ekki stærð eða afl skipa
    Tillaga 9 — Yfirfara lög og reglur til að tryggja að þær dragi ekki úr hvötum til þróunar á veiðafærum
    Tillaga 10 — Setja hvata svo tilkynnt sé um öll töpuð veiðafæri og innleiða staðlaðar merkingar á öll veiðafæri
  • C. Umgengni um sjávarauðlindina
    Tillaga 11 — Allur veiddur afli komi í land. Setja hvata til að tryggja að óæskilegur afli komi að landi
    Tillaga 12 — Samræma vigtun afla og gera ferlið skilvirkara
    Tillaga 13 — Setja frekari skilyrði um gæði í meðhöndlun á fiski við strandveiðar
    Tillaga 14 — Setja hvata til nýtingar og endurnýtingar
  • D. Orkuskipti í sjávarútvegi
    Tillaga 15 — Setja á fót sjóð þar sem orkuskipti í sjávarútvegi eru samfjármögnuð
    Tillaga 16 — Við breytingar á strandveiðikerfi verði hugað að fyrirkomulagi sem hámarkar orkunýtingu
  • E. Kerfi fiskveiðistjórnunar
    Tillaga 17 — Viðhalda aflamarkskerfinu
    Tillaga 18 — Skerpa og endurskoða markmið strandveiða
    Tillaga 19 — Tilfærsla almenns byggðakvóta
    Tillaga 20 — Endurskoða skel- og rækjubætur og línuívilnun
    Tillaga 21 — Ráðstöfun sértækra byggðakvóta til byggða þar sem veiðar og vinnsla eiga framtíð fyrir sér
    Tillaga 22 — Afnema 5,3% kerfið og nýta afraksturinn til uppbyggingar dreifðra byggða
    Tillaga 23 — Skoða hvort, hvar og hvernig sé heppilegt að koma á kerfi með svæðisbundnum nýtingarrétti
    Tillaga 24 — Herða veiðiskyldu
  • F. Nýting gagna
    Tillaga 25 — Koma á rafrænni skráningu um rekjanleika afla í allri virðiskeðjunni
    Tillaga 26 — Skilgreina og byggja upp miðlægt gagnasafn til að halda utan um öll þau gögn sem verða til í sjávarútvegi
    Tillaga 27 — Fyrirtækjum í veiðum og vinnslu og stofnunum verði skylt að afhenda gögn í gagnagrunn
  • G. Markaðssetning, sala og orðspor
    Tillaga 28 — Tryggja þarf áherslu á sjávarútveg innan Íslandsstofu
    Tillaga 29 — Vinna stefnu um markaðssetningu Íslands (marketing of nations)
    Tillaga 30 — Koma á fót opinberum upplýsinga-, gæða- og sjálfbærnivettvangi
    Tillaga 31 — Auka vitund um mikilvægi og heimild til notkunar íslenska fánans eða annarrar upprunamerkingar
    á íslenskar sjávarafurðir
    Tillaga 32 — Þrýsta á upprunaupplýsingar og upplýsingar um kolefnisfótspor
    Tillaga 33 — Yfirfara regluverk og aðgerðir innan fiskveiðistjórnunar, hvort þar séu þættir sem hamli eða skapi neikvæða
    hvata gegn stöðugu framboði íslenskra sjávarafurða
    Tillaga 34 — Stjórnvöld vinni að því að ná fram hagstæðari tollasamningum / fríverslunarsamningum
  • H. Menntun
    Tillaga 35 — Efla samráðsvettvang um menntun í sjávarútvegi fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, rannsóknar- og menntastofnanir
    Tillaga 36 — Tryggja að skólar geti tekið við og menntað fleiri nemendur
    Tillaga 37 — Stjórnvöld standi fyrir kynningarátaki á fjölbreyttum námsmöguleikum og störfum í sjávarútvegi fyrir öll skólastig
    Tillaga 38 — Breyta ímynd og námsumhverfi á námsbrautum tengdum sjávarútvegi og laða að fjölbreyttari nemendahópa
    með tilliti til kyns og uppruna
    Tillaga 39 — Bjóða og styðja við nám í tæknifögum, iðngreinum og fleiri lykilfögum sjávarútvegs sem næst heimabyggðum um allt land
    Tillaga 40 — Efla og þróa þverfaglegt nám sem tengist sjávarútvegi
    Tillaga 41 — Draga úr íþyngjandi áhrifum löggildinga
    Tillaga 42 — Færa seinni hluta lengri námslína í iðn- og tækninámi á framhaldsskólastigi upp á háskólastig
    Tillaga 43 — Efla menntun og rannsóknir í upplýsingatækni á Íslandi, með áherslu á gervigreind og hagnýtingu stórra gagnasafna
    Tillaga 44 — Auka aðgengi greinarinnar að menntuðu fólki í markaðsfræði og sölustýringu í sjávarútvegi
  • I. Auðlindagjöld
    Tillaga 45 — Hækka veiðigjald og einfalda útreikning þess
    Tillaga 46 — Taka upp fyrningaleið
    Tillaga 47 — Auðlindasjóður og lögbundin dreifing til sveitarfélaga
  • J. Gagnsæi sjávarútvegsfyrirtækja
    Tillaga 48 — Aukið gagnsæi í eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja
    Tillaga 49 — Aukið gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja
    Tillaga 50 — Úttekt á áhrifum eigna- og stjórnunartengsla innan sjávarútvegs og í óskyldum greinum
    Tillaga 51 — Önnur viðmið um hámarksaflahlutdeild og tengda aðila
  • K. Starfsumhverfi í sjávarútvegi
    Tillaga 52 — Samstillt átak stjórnvalda og fyrirtækja í sjávarútvegi um sífellda og nútímalega öryggisfræðslu í sjávarútvegi
    Tillaga 53 — Skylda öll fiskiskip til að innleiða öryggisstjórnunarkerfi
    Tillaga 54 — Bæta umgjörð um andlegt öryggi starfsmanna til sjós
    Tillaga 55 — Gildissvið löggjafar um kynjakvóta í stjórnum verði útvíkkað þannig að skyldan nái til hagsmunaog félagasamtaka yfir ákveðinni stærð
    Tillaga 56 — „Kvenna/kvára“ fyrsta togarann í íslenskum sjávarútvegi þannig að konur/kvár séu a.m.k. 30% starfsfólks um borð
    Tillaga 57 — Skilja stöðu fjölbreytileikans
    Tillaga 58 — Hvetja til þess að laus störf í sjávarútvegi séu auglýst til umsókna
  • L. Löggjöf á sviði fiskveiðistjórnunar
    Tillaga 59 — Einfalda og samræma löggjöf á sviði fiskveiðistjórnunar í ein heildarlög
    Tillaga 60 — Lögfesta í stjórnarskrá ákvæði um fiskveiðiauðlindina sem sameign þjóðarinnar
Deila: