Sendinefnd frá Sierra Leone kynnti sér íslenskan sjávarútveg

Deila:

Sendinefnd frá Sierra Leone undir forystu sjávarútvegsráðherrans Emmu Josephine Kowa kynnti sér íslenskan sjávarútveg í síðustu viku. Deild sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna, GRÓ-FTP, sá um móttöku nefndarinnar og skipulagði skoðunarferðir í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Tveir fulltrúar í nefndinni eru fyrrverandi nemendur úr sjávarútvegskólanum.

Nefndarmenn tóku þátt í fimm daga námskeiði og yfirferð yfir íslenskan sjávarútveg á vegum Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, Matís og utanríkisráðuneytinu.

Fiskveiðar eru mikilvægar fyrir efnahag Sierra Leone, matvælaöryggi og atvinnusköpun. Þrátt fyrir það hefur verið mikill þrýstingur á fiskistofna og skortur á innviðum hefur valdið því að ekki tekst að nýta allan þann afla, sem berst að landi.

GRÓ-FTP hefur unnið með sjávarútvegsráðuneyti Sierra Leone að útbótum í sjávarútvegi með ýmis konar stuðningi. Tilgangur heimsóknarinnar var að fá gott yfirlit yfir það, sem Ísland býður upp á á sviði sjávarútvegs, bæði til skamms og langs tíma, svo sem stuðning við að veiðarnar þar verði sjálfbærar.

Þá voru vinnufundir með sérfræðingum í sjávarútvegi haldnir og fyrirtæki heimsótt.

Sendinefndin sýndi mikinn áhuga á frekari samvinnu á sviði stofnstærðarmats, fiskveiðistjórnunar, virðisauka afurða, og aukinnar veiði- og vinnslugetu, þróunar, nýjungum og starfsþjálfun.
Myndin er frá heimsókn nefndarinnar í Þorbjörn hf. í Grindavík.

 

Deila: