Lítt breyttur loðnusamningur

Deila:

Samningur Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga um loðnuveiðar var endurnýjaður lítið breyttur í lok síðustu viku. Í samningnum kemur fram að Íslendingar muni auka rannsóknir á loðnu og fara norðar með Grænlandi og á Jan Mayen-svæðinu en áður.

Farið er fram á að Norðmenn og Grænlendingar komi í auknum mæli að þátttöku í kostnaði við verkefnið. Viðræðum um breytta skiptingu hlutdeildar verður haldið áfram, en Grænlendingar hafa farið fram á aukna hlutdeild vegna aukinnar útbreiðslu í lögsögu þeirra. Samkvæmt núgildandi samningi er Ísland með 81% hlutdeild, Grænland með 11% og Noregur 8%. Þessi hlutföll verða óbreytt á næstu vertíð.

Ráðgjöf frá ICES um loðnuafla næsta vetur er væntanleg 13. júní og miðað við fyrirliggjandi gögn verður hann enginn. Að loknum loðnuleiðangri í september verður upphafsaflamark endurskoðað í ljósi niðurstaðna. Staðan var sambærileg í fyrrasumar og enginn upphafskvóti var gefinn út. Er leið á vetur kom í ljós að veiðistofninn var stærri en menn hugðu og endaði heildarkvótinn í um 300 þúsund tonnum eftir leiðangur í febrúar.
Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í dag.

Deila: