Sænskur Íslandsvinur lætur af störfum
Nýlega lét Torsten Pihl af störfum fyrir aldurs sakir eftir tæplega 50 ára störf hjá sænska stórfyrirtækinu Orkla Seafoods sem til skamms tíma hét Abba Seafood.
Torsten kom fyrst til Íslands árið 1974 og síðasta vinnuferðin hingað var á þessu ári. Abba var mjög stór kaupandi sjávarafurða hér á landi í áratugi, allt frá því að söltun Norðurlandssíldar hófst og fram á þennan dag. Auk saltsíldar keypti fyrirtækið hér mikið magn saltaðra hrogna, bæði þorsk- grásleppu- og loðnuhrogn auk frosinnar rækju. Þegar best lét kom Torsten allt að 15 sinnum ári til Íslands en eftir þvi sem dró úr viðskiptum Abba hér á landi fækkaði ferðunum. Í áranna rás hefur Torstein eignast marga vini og kunningja á Íslandi og þeir eru ófáir sem hafa lagt leið sína til Kungshamn í Svíþjóð og heimsótt Abba og kynnt sér hvað verður um hráefnið frá Íslandi og notið gestrisni fyrirtækisins sem alla tíð hefur verið leiðandi í framleiðslu síldar og hrognaafurða. Íslendingar hafa oft verið Abba innan handar í vöruþróun og verklagi þannig að mikil tengsl hafa verið milli landanna. Þessi samvinna var mjög mikil milli Abba og Síldarútvegsnefndar meðan hún starfaði. Á árum áður þegar söltun Norðurlandssíldar var og hét var eitt dýrasta vörumerki fyrirtækisins ílöng dós með áletruninni „Av finaste äkta Islandssill“ en langt er síðan það var aflagt. Þekktasta vörumerkið undanfarna áratugi er hins vegar „Kalles kaviar“ sem er löngu orðið hluti af sænskri matarmenningu.
Sá háttur var hafður á að fyrstu áratugina á síðustu öld stjórnuðu kaupendur meira og minna söltun og yfirtöku á sinni saltsíld en það breyttist með árunum og söltuninni var stjórnað af Síldarútvegsnefnd og íslenskir yfirtökumenn sáu um útflutningsskoðunina en nokkir kaupendur frá Norðurlöndum höfðu engu að síður sína skoðunarmenn viðstadda hverju sinni, Torsten sinnti þessu fram á þetta ár. Með minnkandi umsvifum Abba hér á landi varð Torstein með tímanum eini eftirlitsmaður fyrirtækisins sem sinnti Íslandi, áður voru allt að fjórir menn í þessu hlutverki. Torsten segir að honum hafi gengið vel að vinna með íslenskum framleiðendum og gangi sáttur frá borði við allt og alla hér á landi á þessum tímamótum.
Torsten fetaði í spor föður síns, Axels Pihl sem var vel þekktur yfirtökumaður hér á landi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.
Aðspurður um helstu breytingar á hér á landi á þessum tæpu 50 árum segir Torstein þær vera ótrúlega miklar, í upphafi hans starfstíma voru síldarsöltunarstöðvarnar yfir 60 talsins, allt frá Raufarhöfn austur um land að Rifi á Snæfellsnesi, þeim fór fækkandi þegar leið á áttunda áratuginn samhliða því að öll síldveiði færðist frá reknetum yfir í nótaveiði, þá fækkaði veiðiskipum og verkunum um leið og þær sem eftir stóðu urðu stærri og öflugri. Sama má segja um hrognasöltunina, þegar best lét var Abba að kaupa á annan tug þúsunda tunna af hrognum frá Íslandi árum saman, aðallega á svæðinu frá Hornafirði og vestur í Breiðafjörð, allt fram á níunda áratuginn þegar tók að draga úr viðskiptunum vegna aukinnar framleiðslu í Noregi samfara stórauknum þorskveiðum þar eftir mörg mögur ár. Sama má segja um síldarsöltunina, nú er bara ein alvöru síldarsöltunarstöð rekin á Íslandi og síldaraflinn er að mestu nýttur í frystar afurðir, sænskir síldarkaupendur reiða sig að mestu leyti á saltsíldarkaup frá Noregi þar sem norsk- íslenski síldarstofninn ber uppi vinnsluna.
Að leiðarlokum vill Torstein koma fram þakklæti og kveðjum til allra sem hann hefur kynnst hér á landi gegnum tíðina um leið og hann kveður starfsvettvanginn og snýr sér að öðrum hugðarefnum.
Kristján Jóhannesson tók þennan pistil saman.