Glæsilegt fiskiðjuver að rísa á Grundarfirði

Deila:

„Allt verður nýtt nema flökunarvélarnar. Við erum að kaupa stóran pakka frá Marel. Að auki er hluti af búnaðinum frá Skaginn 3X. Einnig er algerlega nýtt frystikerfi frá Kælismiðjunni Frost. Hönnuður hússins er Helgi Már Halldórsson á arkitektastofunni Aski, og verkfræðistofan Verkís fengin að verkinu en í forsvari fyrir þá er Hjörtur Hansson. Ístak sér alfarið um byggingu hússins með ýmsa undirverktaka.

Þetta hefur gengið frábærlega og samstarfið gott og allt er á áætlun. Við ætlum að hefja vinnslu í nýju húsi að morgni annars janúar á næsta ári. Þetta er með öllu langleiðina í 3.000 fermetrar, sem er tvöfalt stærra en gamla húsið. Við erum að taka allt það nýjasta sem þekkt er í tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslu. Þarna getum við því unnið jöfnum höndum bæði þorsk, ufsa ýsu og karfa. Við verðum með tvær skurðarvélar, sem geta gengið samtímis og skilað fiski inn á tvær snyrti- og pökkunarlínur.“

Börn Guðmundar og Ingibjargar saman komin á góðum degi: Runólfur, Kristján, Páll Guðfinnur, Ingi Þór, Guðmundur Smári, Svanur og Unnsteinn halda á systur sinni Marí Magdalenu.

Börn Guðmundar og Ingibjargar saman komin á góðum degi: Runólfur, Kristján, Páll Guðfinnur, Ingi Þór, Guðmundur Smári, Svanur og Unnsteinn halda á systur sinni Maríu Magdalenu.

Kvótinn heimsótti sjávarútvegsfyrirtækið G.Run nýlega, en bygging nýs fiskiðjuvers frá grunni er nú langt komin. Eigendur G.Run eru sjö af átta börnum Guðmundar Runólfssonar, skipstjóra og útgerðarmanns og eiginkonu hans Ingibjargar S. Kristjánsdóttur og Móses Geirmundssonar frændi þeirra. Sjö barna Guðmundar og Ingibjargar starfa við fyrirtækið. Á staðnum naut blaðamaður leiðsagnar bræðranna Runólfs, Unnsteins og Guðmundar Smára, sem fóru yfir framkvæmdirnar, söguna markmiðin og samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins.

Tveggja ára framvinda

Yfirlit yfir vinnslusalinn eins og hann verður. Tveir stórir laufrystar ganga inn í gamla húsið.

Yfirlit yfir vinnslusalinn eins og hann verður. Tveir stórir laufrystar ganga inn í gamla húsið.

„Þetta er að verða tveggja ára framvinda, en þegar við byrjuðum að teikna þetta fiskiðjuver, byrjuðum við að skipuleggja það bæði með Marel og Völku, uppsetningu að heildarverksmiðju til að átta okkur á því hve stórt hús við þyrftum að byggja utan um vinnsluna. Vinnslan skipulögð fyrst, svo húsið utan um hana. Svo kom fljótlega í ljós að þetta yrði allt stærra í sniðum en við ætluðum. Við reikuðum upphaflega með um 1.000 fermetrum en byggingin endaði í 2.700 fermetrum miðað við gólfflöt, viðbót við gamla húsið. Þegar við vorum búnir að setja upp þá vinnslulínu sem við vildum, var vandamálið að finna lóð fyrir starfsemina. Hvergi var að fá nógu stóra lóð við höfnina og ef við færum þangað, sætum við uppi með gamla húsið með lítið notagildi. Við völdum því búnað sem félli að því að reisa nýja húsið við það gamla og geta þá nýtt það gamla fyrir tvo stóra Torry lausfrysta, sem gengju inn í það gamla og fyrir flokkun frá þeim.“

Marel valið

Þegar búnið var að pæla í tækjabúnaðinum, var ákveðið að velja Marel. Mikið til vegna þess að þeir réðu við heildarlausn fyrir vinnsluna, því þarna er verið að taka allt nýtt nema flökunarvélarnar. Nýjar frystivélar og algjörlega nýjan búnað í móttöku frá Skaginn 3X. Í því eru tveir karahvolfarar með magasíni með frátöku inn á þvottavél og stöflurum, alveg sjálfvirk móttaka. Þeir  bættu líka við sig hausurum og einni flökunarvél frá Baader. Frystivélarnar eru svo frá Kælismiðjunni Frost. Þegar  ferskar afurðir eru teknar inn fara þær inn í mikinn kulda til að ná hitanum í afurðunum niður í núllið og halda  hitastiginu stöðugu rétt ofan við frostmarkið.

Helgi SH er annar togbáta fyrirtækisins.

Helgi SH er annar togbáta fyrirtækisins.

Hámarka nýtingu

„Það sem ýtti okkur út í þessa uppbyggingu eru vatnsskurðarvélarnar sem eru komnar á markaðinn. Þessi íslenska hönnum, sem er mjög spennandi bæði frá Völku og Marel. Við völdum vélar frá Marel og þær gefa okkur kleift að hámarka nýtingu flaksins með tölustýrðum búnaði. Það sama á við pökkunarlínurnar, þar ætlum við líka að fá betri nýtingu með því að minnka yfirvigt. Með þessu getum við skaffað bita sem eru í réttri þyngd og lögun, nokkuð sem mannshöndin ræður ekki við. Kröfurnar um nákvæmni og stöðugleika eru orðnar svo miklar að þeim verður ekki svarað öðruvísi en með tölvusjón í dag.

Við sáum fram á það að ef við værum ekki með í þessari framþróun, að nýta okkur þessar vatnsskurðarvélar og alla þá möguleika í aukinni nýtingu, sem þeim tilheyrðu, myndi landvinnslan hjá okkur líða undir lok innan fárra ára. Innlendur kostnaður eins og laun hafa hækkað og styrking krónunnar þýðir að færri krónur skila sér heim. Okkur væri því einn kostur vænstur, að spýta í lófana og gera betur.

Hringur SH. Bátarnir afla hráefnis fyrir vinnsluna og í framhaldinu er gert ráð fyrir kaupum á fiski á mörkuðum og jafnvel kvótakaupum til að auka aðgang að hráefni.

Hringur SH. Bátarnir afla hráefnis fyrir vinnsluna og í framhaldinu er gert ráð fyrir kaupum á fiski á mörkuðum og jafnvel kvótakaupum til að auka aðgang að hráefni.

Gera ráð fyrir fiskkaupum á mörkuðum og jafnvel kvóta

Við erum að leggja allt undir í þessu mikla verkefni og við erum búnir að reikna það fram og til baka að afraksturinn með því að hámarka nýtinguna á flakinu og minnka yfirvigt, skilar sér í auknum tekjum á ótrúlega skömmum tíma. Það sem gerði okkur kleift að fara út í þessa miklu framkvæmd, var sú leiðrétting sem við fengum á lánsviðskiptum við Landsbankann eftir hrunið. Við teljum að við verðum, þegar upp er staðið, með eitt flottasta fiskiðjuver landsins. Hérna erum við að fara út í matvælavinnslu á hærra stigi. Við gerum ráð fyrir þeim möguleika að geta svo farið að pakka meira í neytendapakkningar og  nýta róbóta í pökkun til að hámarka þannig afraksturinn af því sem við erum að gera. Sjálfvirkni af þessu tagi tekur meira pláss og við gerum ráð fyrir því í þessari byggingu. Það er horft til framtíðar. Við munum því til dæmis geta tekið á móti pöntun á flakabitum af hvaða stærð sem er og lögun að morgni, unnið upp í hana sama dag, sent út í flug seinni hluta dags og sendingin verið komin til kaupanda daginn eftir og jafnvel á disk neytandans á þriðja degi frá veiðum. Fiskur veiddur í gær, unninn í dag, kominn erlendis á morgun.

Gætu farið í 70 tonn á dag

Við reiknum með að þetta hús eins og við setjum það upp með sama mannafla og er í dag, geri okkur kleift að fara úr 18 tonna framleiðslu á dag í um 40 tonn á fyrsta ári og eigum alla möguleika á því að fara í 70 tonn með lítilsháttar breytingu í þessu húsi. Til þess þurfum við meira hráefni en af okkar skipum og horfum þá til fiskmarkaða, en á ári hverju eru flutt héðan af Snæfellsnesi um 25.000 tonn af óunnum fiski til vinnslu annars staðar. Ef við verðum ekki hæfir til að kaupa eitthvað af því, höfum við reiknað dæmið vitlaust. Einnig ættum við að vera færir um að kaupa viðbótar kvóta. Það sem þetta nýja fiskiðjuver færir okkur í aukinni arðsemi á að gera okkur þetta mögulegt.“

Vinnslan í gamla húsinu verður í gangi þar til í nóvember, síðan verður að stoppa vinnsluna í tvo mánuði. Allt starfsfólk verður á launum þann tíma sem þessi umskipti eiga sér stað.

Samfélagsleg ábyrgð

„Við sýnum þá samfélagslegu ábyrgð með þessum framkvæmdum, að halda hér uppi veiðum og vinnslu og auka umsvifin. Okkur var uppálagt það í upphafi þegar við komum inn í þetta fyrirtæki með foreldrum okkar að þetta væri Grundarfjarðar, ekki bara okkar. Hér fæddumst við og búum hér og ætlum að ljúka starfsævi okkar hér. Okkur var sköpuð þessi aðstaða, að geta gert héðan út og geta unnið fisk og skapað skilyrði til búsetu og verðmæti fyrir heimabyggð og landið allt. Hjá okkur vinna til sjós og lands um 10% íbúa Grundarfjarðar. Við berum ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þetta skiptir miklu máli fyrir bæjarfélagið og sem dæmi má nefna, að eftir að þessi ákvörðun okkar um uppbygginu lá fyrir, voru seldar 10 byggingarlóðir í bænum, þær fyrstu í afar langan tíma.“

Myndir og texti Hjörtur Gíslason.

Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri, blaði Ritforms.

 

Deila: