Mikill útflutningur frá Noregi

Deila:

Norðmenn hafa flutt utan um tvær milljónir tonna af sjávarafurðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Verðmæti þessa útflutnings er 71 milljarður norskra króna, sem svarar til 985 milljarða íslenskra króna. Þetta er aukning um 174.000 tonn eða 8%. Verðmætið hefur vaxið um 2,3% eða 32 milljarða íslenskra króna. Því gæti svo farið að verðmæti útflutningsins færi yfir 100 milljarða norskra króna fyrir áramót, eða sem svarar til 1.387 milljarða íslenskra króna.

Útflutningur í september síðastliðnum var 160.000 tonn að verðmæti 107 milljarðar króna. Það var samdráttur í magni um 21% og 4% í verðmæti borið saman við sama mánuð á síðasta ári.

Útflutningur á laxi það sem af er ári er 759.00 tonn að verðmæti 684 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning um 7% í magni og 4% í verðmæti.

Sala á ferskum þorski á umræddu tímabili nemur 57.000 tonnum, bæði heill fiskur og flök. Verðmætið er 29 milljarðar króna. Magnið hefur dregist lítillega saman en verðmætið er 3% hærra. Þá hafa farið utan 52.000 tonn af frystum þorski. Það er samdráttur um 13% en verðmætið er nánast það sama og í fyrra.

Útflutningur á þurrkuðum saltfiski er svipaður nú og í fyrra. Magnið er 65.000 tonn og verðmætið 42 milljarðar. Aukning í magni er 3% og vöxtur í verðmætum 5%. Af blautverkuðum saltfiski hafa farið utan 25.000 tonn að verðmæti 17 milljarðar. Vöxtur í magni er 5% en verðmætið hefur aukist um 18%.

Útflutningur á skreið nemur 3.200 tonnum það sem af er ári að verðmæti 6 milljarðar króna. Aukningin er 13% í magni og 14% í verðmæti.

Síldarsalan í ár er 199.000 tonn að verðmæti 25 milljarðar. Magnið hefur aukist um 13%, en verðmætið lækkað um 6%. 93.300 tonn af makríl hafa farið utan og er verðmætið  17 milljarðar íslenskra króna. Þar er mikill samdráttur eða 31% í magni og 27% í verðmæti.

 

Deila: