Icelandic og Margildi skrifa undir samstarfssamning
Icelandic Trademark Holding, eigandi vörumerkjanna „Icelandic“ og „Icelandic Seafood“ og Margildi ehf. hafa skrifað undir leyfissamning um markaðssetningu og sölu á fiskolíum undir vörumerkinu „Icelandic Fish Oil“ í Bandaríkjunum. Áætlað er að sala og dreifing hefjist síðar á árinu Munu þau hefja markaðssetningu og sölu á „Icelandic Herring Fish Oil“ í Bandaríkjunum innan skamms.
Margildi sérhæfir sig í framleiðslu bragðgóðs hágæða lýsis, (Omega-3 fitusýra) úr íslenskum uppsjávarfiski. Einstök einkaleyfisvarin framleiðsluaðferð Margildis á lýsi stuðlar að nærri því tvöfalt betri nýtingu á hrálýsi með því að vinna það til manneldis í stað dýraeldis. Margildi vinnur að því að beina neyslu á lýsi sem mest yfir í fljótandi form sem fæðubótarefni en einnig sem Omega-3 íblöndunarefni í matvæli, svokallað markfæði. Þannig er fleirum gert kleift að neyta Omega-3 á sama tíma og dregið er úr notkun umbúða.
Icelandic Trademark Holding ( ITH )er eigandi og þjónustuaðili vörumerkjanna „Icelandic” og „Icelandic Seafood” sem einblína á hágæðavörur með íslenskan uppruna og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna og þjónustu gagnvart leyfishöfum og íslenskum framleiðendum í Bandaríkjunum, Suður-Evrópu og Íslandi.
„Við erum mjög spennt fyrir samstarfinu við Margildi og að markaðssetja þeirra hágæðaafurðir undir okkar sterka vörumerki Icelandic. Vaxandi áhugi á neytendamarkaði fyrir Íslandi og íslenskum vörum hefur fært okkur stóraukin sóknarfæri og slíkur áhugi hjálpar fyrirtækjum að vera með vörumerki og umbúðir sem vísa sterkt í íslenskan uppruna,“ sagði Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Trademark Holding. „Til viðbótar við þann styrkleika að geta kennt sig við upprunann og ímynd sem Ísland hefur á borð við náttúru, hreinleika, og sjálfbærni er þetta spennandi markaður að sækja inn á með þessar vörur en í Bandaríkjunum einum og sér er Omega-3 / lýsismarkaður yfir 1,2 billjónir dollara á ári. Rannsóknir gefa auk þess til kynna að minni vörumerki vaxa hraðar á markaðnum sem geta nýtt sér tengingu við “Natural“eða ´´Organic“ og að mikil tækifæri liggi í netverslun meðfram hefðbundinni smásölu,“ sagði Herdís.
Margildi vinnur í samstarfi við nokkur íslensk fyrirtæki að þróun hollra matvæla sem innihalda Omega-3 úr lýsinu og má þar m.a. nefna ferskt pasta, viðbit úr smjöri, skyr, smúðinga, íslenska repjuolíublöndu, brauð, hummus, hnetusmjör, fiski- og grænmetisbuff o.fl. Á síðasta ári hlaut Margildi hin alþjóðlegu Superior Taste Award matvælagæðaverðlaun frá iTQi (International Taste & Quality Institute) fyrir síldarlýsi sitt. Verðlaunin eru staðfesting á miklum bragðgæðum lýsisins og þau styðja það markmið Margildis að gera lýsisneyslu að jákvæðri upplifun á allan hátt.
Snorri Hreggviðsson framkvæmdastjóri Margildis sagði af þessu tilefni „ Með aukinni vitundarvakningu neytenda undanfarin ár á mikilvægi þess að auka við heilbrigði og neyta hágæða lýsis (Omega-3) sem jafnframt uppfylla þau skilyrði að vera framleidd úr hreinum og sjálfbærum hráefnum sjáum við mikil tækifæri í sölu og markaðssetningu okkar hágæðaafurða undir merkjum Icelandic. Síldarlýsi Margildis var fyrsta vara okkar á markað og fæst hérlendis undir merkjum Fisherman en nýverið kom einnig á markað Astalýsi sem Margildi þróaði í samstarfi við KeyNatura sem markaðssetur og selur það hérlendis.“
Margildi hefur m.a. hlotið nýsköpunarstyrki frá Tækniþróunarsjóði Rannís, AVS rannsóknarsjóði, Íslandsbanka og ANR. Samningurinn við Icelandic rennir styrkari stoðum undir sölu og markaðssetningu framleiðsluvara Margildis erlendis en þær hafa nú þegar verið seldar til Bandaríkjanna, Kína, Nýja Sjálands, Skandinavíu, Póllands og Litháen.
„Framtíðin er björt og spennandi tímar framundan þar sem það verður styrkur og jafnframt skemmtilegt að geta vísað beint til íslensks uppruna okkar framleiðsluvara í vörumerkinu sjálfu,“ Ssagði Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildis
Icelandic Trademark Holding
Upprunalega stofnað árið 1942 sem leiðandi aðili í framleiðslu og sölu á sjávarafurðum, Icelandic Group hefur á undanförnum árum þróast í sérleyfis- og þjónustufyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík undir nafninu Icelandic Trademark Holding.
Icelandic Trademark Holding ( ITH ) er eigandi og þjónustuaðili vörumerkjanna “Icelandic” og “Icelandic Seafood” sem einblína á hágæðavörur með íslenskan uppruna
Helstu samstarfsaðilar félagsins auk Margildis, eru Solo Seafood og Highliner Foods sem selja hágæða sjávarafurðir undir vörumerkinu Icelandic Seafood. Afurðir seldar undir vörumerkinu Icelandic Seafood lúta ströngum gæðakröfum og gæðaeftirliti sem er grunnurinn að þeirri sterku stöðu sem vörumerkið hefur á mörkuðum.
- Solo Seafood, eigandi Ibérica á Spáni, er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi en Ibérica selur sjávarafurðir til meira en 4.000 viðskiptavina í fimm löndum í SuðurEvrópu.
- Kanadíska fyrirtækið Highliner Foods, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í N-Ameríku í framleiðslu sjávarafurða, er leyfishafi vörumerkisins og selur frosnar sjávarafurðir“ inn á hótel og veitingahús.
- Framtakssjóður Íslands (FSÍ) er eigandi að 100% hlutafjár í Icelandic Group. FSÍ er fjárfestingarsjóður í eigu fimmtán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.
Um Margildi
Margildi var stofnað af Erlingi Viðari Leifssyni og Snorra Hreggviðssyni og hóf reglubundna starfsemi snemma árs 2014. Þeir hafa báðir starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi og fljótlega bættist í hópinn Magnús Valgeir Gíslason rannsókna- og þróunarstjóri. Starfsmenn eru 4 en samtals voru um 7 ársverk unnin á vegum Margildis 2017.
Margildi hefur á að skipa öflugu teymi stjórnarmanna og hluthafa með yfirgripsmikla þekkingu. Núverandi eigendur eru einstaklingar og eða einkahlutafélög í þeirra eigu. Þeir leggja fyrirtækinu til fé en ekki síður reynslu, tengslanet og þekkingu. Margildi hefur hlotið nýsköpunarstyrki frá Tækniþróunarsjóði Rannís, AVS rannsóknarsjóði, Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR), Uppbyggingarsjóðum Austur- og Suðurlands og Íslandsbanka svo einhverjir séu nefndir. Margildi hlaut Svifölduna 2016 sem eru framúrstefnuverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar. Við höfum átt mjög farsælt samstarf við Sjávarklasann, Matís, Háskólann á Akureyri, Keynatura, MS, Pasta, Eflu og Alta. Hrálýsi til framleiðslunnar hefur Margildi aðallega fengið frá Síldarvinnslunni, Eskju og HB Granda.
Margildi framleiðir og pakkar lýsinu í verktökuframleiðslu hérlendis og í Noregi en undirbýr byggingu eigin lýsisverksmiðju hérlendis sem grundvallast á einkaleyfisvarinni vinnsluaðferð Margildis. Stefnt er að vinnslu a.m.k. 2000 tonna hrálýsis úr loðnu, síld og makríl til manneldis. Unnið er að frekari fjármögnun verkefnisins með aðkomu fagfjárfesta. Með tímanum er stefnt á að auka afkastagetuna í 6.500 tonn í eftir því sem starfsemin eflist og nýir markaðir opnast.