Ferð til fjár í Loðmundarfirði

Deila:

Varðskipið Týr flutti fjóra röska smala og þrjá vaska smalahunda frá Seyðisfirði yfir í Loðmundarfjörð um helgina. Í firðinum er talsvert af sauðfé sem ekki tókst að smala til byggða í haust. Það hefur því hafst þar við í allan vetur, og sumar kindanna raunar hugsanlega lengur.

Týr er þessa dagana fyrir austan land þar sem loðnuveiðarnar standa nú yfir. Skipið er þar við eftirlit og fóru varðskipsmenn meðal annars um borð í erlend loðnuskip í nýliðinni viku.

Um helgina var það hins vegar aðstoð við ferfætlingana og eigendur þeirra sem var verkefni varðskipsmanna. Siglingin úr Seyðisfirði yfir í Loðmundarfjörð gekk vel enda ágætis veður á þessum slóðum í gær. Smalarnir og hundarnir fóru svo í land í Loðmundarfirði með léttbát Týs. Þar ætluðu þeir að hitta vélsleðamenn sem komu frá Egilstöðum og stefndu þeir að því að reka allt féð, um fimmtíu kindur, yfir í Seyðisfjörð. Þótt lendingin væri ekki eins og best verður á kosið gekk allt að óskum við koma bæði hundum og mönnum í land.

Í lögum um Landhelgisgæsluna (Opnast í nýjum vafraglugga) eru margvísleg verkefni hennar skilgreind og meðal annars tiltekin aðstoð þegar eðlilegar samgöngur bregðast. Verkefni gærdagsins er gott dæmi um þetta. Þá er skemmst að minnast vatnsdælingar úr varðskipinu Þór yfir í Flatey á Breiðafirði í ársbyrjun þegar stefndi í vatnsþurrð í eynni.

Deila: