Peningar drógu Ása til Eyja

Deila:

„Við bjuggum á Suðurnesjum í tvö ár og ég starfaði við smíðar. Þetta var rétt eftir efnahagshrunið, lítið að gerast og andrúmsloftið dapurt á svæðinu. Einungis dagvinna í boði og ekkert umfram það. Ég var hreinlega á leið á hausinn og vildi meiri vinnu og auknar tekjur en slíkt var ekki í boði. Hvoru tveggja bauðst hins vegar í Vestmannaeyjum og hingað fluttum við í nóvember 2009. Peningar drógu mig til Eyja og eftir hálft ár höfðum við komið fjármálunum í gott horf á nýjan leik.“

Ásgrímur Ágúst Hinriksson er borinn og barnsfæddur Stokkseyringur, rétt eins og Sighvatur Bjarnason eldri í Ási sem gerðist framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar 1959 og varð goðsögn í Eyjum. Hann er í viðtali á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

„Vinnslustöðin er af Stokkseyrarkyni eins og ég. Við Sighvatur vorum meira að segja skyldir, afkomendur systkina sem uppi voru á nítjándu öld.“

Ási ók flutningabíl um árabil og bjó lengst af í Reykjavík með eiginkonunni, Rebekku Björgvinsdóttur. Hún er reyndar Eyjamaður að uppruna.

„Ég fór beint í vinnu hjá Vinnslustöðinni 2009, byrjaði í tækjum en varð síðar flokksstjóri í uppsjávarvinnslunni.“

Það blundaði í Ása að fara í iðnnám og hann lét verða af því „á gamals aldri“, eins og hann orðar það. Aldur er afstætt hugtak en auðvitað stenst enga skoðun að maðurinn sé kominn í seinni hálfleik ævinnar, tæplega 45 ára!

Húsasmíðar komu sterklega til greina, enda vann hann við smíðar en hafði ekki fagréttindi.

„Ég valdi frekar vélvirkjann, enda er ég gefinn fyrir véladót og föndur með járn. Sveinsprófi er lokið og ég klára námið í vor.

Í augnablikinu er ég að smíða fatarekka fyrir vinnustaðinn minn, Hafnareyri. Hér hef ég starfað frá því í nóvember 2015. Við erum að koma verkstæði fyrirtækisins fyrir í nýju, rúmgóðu húsnæði. Þrengslin á gamla staðnum í netaverkstæðishúsinu voru slík að maður gat varla snúið sér við án þess að eiga á hættu að slá einhverja vinnufélaga sína niður. Nú er meiri hætta á að við fáum víðáttubrjálæði í nýju, stóru vinnusölunum!

Mér líkar vel á vinnustaðnum og í Eyjum er fínt að búa. Einn stóran galla ber samt að nefna. Samgöngurnar eru óviðunandi og ekki annað í boði en að bæta þær. Það er ekki hægt að venjast því að fá aftur og aftur svarið: Nei, því miður, allt upppantað, þegar mann langur upp á land með bílinn.

Sumir sætta sig við þetta en aðrir ekki. Við erum til dæmis að missa starfsmann að sunnan frá okkur. Hann bara sættir sig ekki við að búa við einangrunina hér. Við getum ekki kallað ástandið annað en einangrun en á því má ráða bót ef vilji er fyrir hendi hjá stjórnvöldum.“

 

Deila: