Loðnukvóti HB Granda 33.400 tonn

Deila:

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að loðnukvótinn á vertíðinni verði 299 þúsund tonn. Þar af koma rúmlega 196 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa. HB Grandi er með um 18% loðnukvótans en þar sem að 5,3% kvótans, eða ríflega 10 þúsund tonnum, er úthlutað sérstaklega, koma 33.423 tonn í hlut skip HB Granda á vertíðinni.

Þetta er mun hærri kvóti en Hafrannsóknastofnun hafði áður lagt til fyrir vertíðina og er þess skemmst að minnast að þann 25. janúar sl. var lagður til heildarkvóti upp á 57 þúsund tonn. Vitað var að mælingin, sem gerð var í fyrri hluta janúarmánaðar, var óviss m.a. vegna slæms veðurs og hafíss yfir hluta leitarsvæðisins og því var ákveðið að ráðast í nýja mælingu dagana 3. til 11. febrúar sl. Niðurstöður þeirrar mælingar gáfu til kynna að stofnstærð kynþroska loðnu væri 815 þúsund tonn. Mæliskekkja (CV) var metin 0,18. Samkvæmt gildandi aflareglu á að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Umrædd aflaregla tekur tillit til óvissumats í mælingunum auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Í ljósi þessa lagði Hafrannsóknastofnun til heildarkvóta upp á 299 þúsund tonn.

Að sögn Garðars Svavarssonar, framkvæmdastjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er gert ráð fyrir að stór hluti úthlutaðs kvóta fari til hrognaframleiðslu sem hefst yfirleitt um mánaðarmótin febrúar/mars.

,,Hér er hins vegar sjómannaverkfall sem staðið hefur yfir í tvo mánuði og eins og staðan er nú þá sér ekki fyrir endann á því. Burtséð frá því eru markaðsaðstæður fyrir loðnu mjög mismunandi eftir einstökum afurðum. Verð á mjöli og lýsi hefur lækkað síðustu mánuði og sala á frystum hæng inn á markaði í Austur-Evrópu er erfið vegna lokunar Rússlandsmarkaðar. Það er hinsvegar góð spurn eftir hrognafullri loðnu á Japansmarkaði og hrognaverð er hátt þar sem litlar birgðir eru til á markaðnum,“ segir Garðar Svavarsson í samtali á heimasíðu HB Granda.
 

 

Deila: