Örfirisey til veiða á ný

Deila:

Frystitogarinn Örfirisey RE er farinn aftur til veiða, nú í norsku lögsögunni, eftir óhapp sem varð í lok október sl. er skipið var að veiðum  í rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Þá brotnaði skiptiteinn í skrúfu skipsins með þeim afleiðingum að draga varð Örfirisey til Svolvær í Norður-Noregi til viðgerðar.

Að sögn Lofts Bjarna Gíslasonar, útgerðarstjóra frystiskipa HB Granda, þurfti að fá varahluti senda frá framleiðanda vegna bilunarinnar. Við blasti einnig einnig að skipið þyrfti að fara í hefðbundna klössun á árinu 2018 og því var ákveðið að klössunin færi fram samhliða viðgerðinni hjá Skarvik skipasmíðastöðinni í Svolvær.

,,Auk viðgerðarinnar á skrúfubúnaðnum var aðalvél og niðurfærslugír skipsins tekinn upp og því verki lauk nú í byrjun vikunnar. Örfirisey fór svo til veiða að nýju að kvöldi sl. miðvikudags og framundan er 40 daga veiðiferð. Ég reikna með því að togarinn komi heim að veiðiferð lokinni og landi aflanum í Reykjavík,“ sagði Loftur Bjarni Gíslason í samtali á heimasíðu HB Granda.

Deila: