Mikill ávinningur yrði af banni við notkun svartolíu
Umhverfisstofnun hefur skilað greinargerð sem gerð var að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um leiðir til að draga úr og hætta notkun svartolíu við Íslandsstrendur. Í greinargerðinni er m.a. gerð grein fyrir þeirri leið að fá settar strangari mengunarreglur umhverfis Íslands hjá Alþjóða siglingamálastofnuninni (IMO), með stofnun sk. ECA-svæðis. Þar er líka fjallað um aðrar leiðir sem færar eru til að draga úr mengun frá skipum og um reglur þess efnis í Noregi og fleiri ríkjum.
Í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir að stefnt skuli að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Það er flókið verkefni hvað það varðar að í efnahagslögsögunni eru siglingar bæði til og frá Íslandi og alþjóðlegar siglingar um íslenskt hafsvæði og þar gilda alþjóðlegar reglur. Í febrúar sl. tók gildi VI. viðauki MARPOL-samningsins hvað íslenska lögsögu varðar, en viðaukinn fjallar um loftmengun frá skipum. Fullgilding Íslands á viðaukanum gerir Íslandi kleift að óska eftir að IMO setji á fót sk. ECA-svæði umhverfis Ísland, en á slíkum svæðum gilda strangari kröfur um losun brennisteins o.fl. mengunarefna en almennt í alþjóðasiglingum. ECA-svæði hafa verið sett upp á Eystrasalti og í Norðursjó og við strendur Norður-Ameríku.
Skv. greinargerð Umhverfisstofnunar þarf Ísland að leggja fram rökstudda tillögu til IMO um uppsetningu á ECA-svæði og fá samþykki á tillögunni. Erfitt sé að segja til um hve langt slíkt ferli gæti verið, en bent á að nokkur ár hafi tekið að fá sum ECA-svæði samþykkt. Umhverfisstofnun bendir á aðrar leiðir sem gætu verið færar fyrir íslensk stjórnvöld til að draga úr mengun frá skipum, sem næðu yfir takmarkaðra svæði en alla efnahagslögsöguna, s.s. bann við notkun svartolíu innan hafnarsvæða eða fjarða eða innan 12 sjómílna.
Umhverfisstofnun telur að helsti ávinningurinn af banni við notkun svartolíu við Íslandsstrendur væri: betri loftgæði, einkum þegar skip liggja í höfn; minni mengunarhætta við olíuleka; minnkun á losun brennisteins- og köfnunarefnisoxíða (SOx og NOx); og jákvæð ímynd fyrir Ísland. Kostnaður við bann fælist í notkun dýrara eldsneytis og þörf á auknu eftirliti og eftirfylgni með hertum reglum. Stofnunin áætlar að um 26% skipa sem sigldu í íslenskri efnahagslögsögu árið 2016 hafi notað einhvers konar tegund af svartolíu.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun halda áfram að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli á grundvelli fullgildingar á VI. viðauka MARPOL-samningsins og greinargerðar Umhverfisstofnunar.
Greinargerð Umhverfisstofnunar (pdf-skjal)