Auknar rekstrartekjur HB Granda

Deila:

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018 námu 50,2 m€, samanborið við 42,0 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 7,8 m€ eða 15,5% af rekstrartekjum, en var 7,4 m€ eða 17,6% árið áður.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 1,3 m€, en voru neikvæð um 0,5 m€ á sama tíma árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,4 m€, en voru jákvæð um 0,5 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 4,1 m€ og hagnaður tímabilsins var 3,3 m€.

Heildareignir félagsins námu 508,6 m€ í lok mars 2018. Þar af voru fastafjármunir 424,6 m€ og veltufjármunir 84,0 m€.  Eigið fé nam 259,9 m€, eiginfjárhlutfall í lok mars var 51,1%, en var 51,6% í lok árs 2017. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 248,8 m€.

Handbært fé frá rekstri nam 9,9 m€ á tímabilinu, en nam 4,1 m€ á sama tíma fyrra árs.  Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 12,6 m€.  Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 1,0 m€.  Handbært fé lækkaði því um 1,7 m€ á tímabilinu og var í lok mars 15,9 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs 2018 (1 evra = 124,02 kr) verða tekjur 6,2 milljarðar króna, EBITDA 1,0 milljarður og hagnaður 0,4 milljarðar.  Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2018 (1 evra = 121,16 kr) verða eignir samtals 61,6 milljarðar króna, skuldir 30,1 milljarðar og eigið fé 31,5 milljarðar.

Skipastóll og afli

Í janúar var ísfiskstogarinn Akurey AK-10 tekinn í notkun og á sama tíma var Sturlaugi AK-105 lagt.  Verið er að gera Viðey RE-50 tilbúna til veiða og er gert ráð fyrir að farið verði í fyrsta prufutúrinn í júní, á sama tíma verður Ottó N. Þorláksson RE-203 afhentur nýjum eiganda.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018 var afli skipa félagsins 11,1 þúsund tonn af botnfiski og 39,0 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

 

Deila: