Börkur til Noregs – aldrei veitt makríl svo norðarlega

Deila:

Þegar fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur ekki undan að taka á móti makrílafla frá þeim skipum sem þar landa sigla þau erlendis með aflann. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði í Færeyjum á dögunum og nú er Börkur NK á leiðinni til Noregs. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki í gær, og spurði fyrst hve löng siglingin væri til Noregs.

„Við lögðum af stað um hádegi í gær og þetta er 32 – 33 tíma sigling. Það verður landað hjá Brødrene Sperre í Ellingsøy við Álasund. Aflinn er 940 tonn og þetta er nokkuð góður makríll, um 400 grömm og átulítill. Við tókum tvö hol í veiðiferðinni. Í því fyrra voru 460 tonn og 370 í hinu síðara. Síðan fengum við 100 tonn hjá Bjarna Ólafssyni. Það var þokkalegasta veiði og dregið í fimm til sex tíma. Að auki var óvenju gott veður á miðunum. Veiðisvæðið núna er langt norður í rassgati. Við enduðum norðan við sjötugustu og fyrstu gráðu og þá vorum við komnir norður fyrir Noreg og Jan Mayen er vestur af veiðisvæðinu. Það voru vel yfir 500 mílur í Norðfjarðarhorn. Við höfum aldrei áður veitt makríl svona norðarlega,“segir Hálfdan.

 

Deila: