Áhersla á umhverfismál
Samskip styrkja árlega fjöldann allan af félögum. Undir eru íþróttafélög, líknarfélög og menningarfélög af öllu tagi. „Í ár hefur áhersla verið lögð á stuðning á ýmis umhverfismál. Í því sambandi má nefna að Samskip eru einn af stofnaðilum Votlendissjóðsins, en hann hefur endurheimt votlendis að markmiði sínu og um leið bindingu kolefnis,“ segir Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, en hún á jafnframt sæti í stjórn Votlendissjóðsins.
Á meðal styrkþega Samskipa eru félög sem stuðla að almannaheill og slysavörnum og má þar til dæmis nefna Björgunarsveitina Geisla, Fræðslu og forvarnir, og Geðvernd.
„Þá hafa Samskip um árabil tengst hestamennsku og þekkja margir eflaust Samskipahöllina, en svo nefnist reiðhöll Spretts í Kópavogi sem Samskip styrkja myndarlega. Reiðhöll á Húsavík og í Snæfellsbæ skarta líka skiltum frá Samskipum og stóðhestabókin auglýsingu,“ bætir Anna Guðný við.
Eru þá ótalin býsna mörg íþróttafélög sem njóta styrkja frá Samskipum. Ber þar fyrst að telja Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, en Samskip hafa um árabil verið einn af helstu styrktaraðilum landsliðsins Íslands í handbolta í gegnum súrt og sætt. „Þá bættist ÍBV í Vestmannaeyjum nýlega í hóp þeirra félaga sem skarta skiltum og fánum frá Samskipum, en styrki frá félaginu hafa líka fengið Boltafélag Ísafjarðar, Fjarðarbyggð knattspyrna, Huginn Seyðisfirði, Grindavík, Víkingur Reykjavík og Íþróttasamband fatlaðra.“ Eru þá ónefndir, að sögn Önnu Guðnýjar, menningartengdir styrkir, svo sem styrkir við karlakóra, skólaútgáfur, Neytendasamtökin, verkalýðsfélög og fleiri.
„Styrkveitingar sem þessar eru í samræmi við stefnu Samskipa um samfélagslega ábyrgð, enda erum við öll á sama báti þegar að því kemur að byggja hér gott samfélag og hlúa að því sem vel er gert,“ segir Anna Guðný.