Umfjöllun sem er engum sæmandi

Deila:

„Nú þegar rætt er um breytingar á veiðigjöldum er mikilvægt að umræðan sé vönduð og yfirveguð. Sumir stjórnmálamenn virðast fjalla um málið án þess að kynna sér það til hlítar og fjölmiðlum hættir til að nota hálfgerðan æsifréttastíl í sinni umfjöllun.“ Svo segir í pistli á á heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær. Þar segir ennfremur:

Í gær var sérstaklega fjallað um veiðigjald á kolmunna og einkenndist sú umfjöllun af samanburði á fyrirhuguðu veiðigjaldi á Íslandi og því verði sem fékkst fyrir veiðiheimildir í kolmunna sem boðnar voru upp í Færeyjum. Niðurstaða þessa samanburðar var sláandi og var upplýst að íslenska ríkið fengi einungis 1 kr fyrir hvert kíló af kolmunna á meðan hið færeyska fengi 6 og væri munurinn því hvorki meiri né minni en 83%. Umfjöllun á borð við þessa er engum sæmandi og skal hér bent á nokkra þætti sem nauðsynlegt er að hafa í huga ef samanburðurinn á að vera raunhæfur:

 

  • Einungis 14% veiðiheimilda í kolmunna var boðinn upp í Færeyjum og fór 70% uppboðsheimildanna til tveggja útgerðarfyrirtækja.
  • Í Færeyjum er greitt veiðigjald af þremur fisktegundum en á Íslandi af fimmtíu.
  • Færeyingar eiga kost á því að nýta hluta kolmunnakvóta síns til manneldisframleiðslu á markað í Rússlandi og fyrir þær afurðir fæst mun hærra verð en fyrir mjöl og lýsi. Þetta geta íslensk fyrirtæki ekki gert meðal annars vegna hins margumrædda Rússabanns.
  • Ef á að bera saman tekjur hins opinbera á Íslandi og í Færeyjum af útgerð er nauðsynlegt að taka tillit til allra þátta. Hér skal til dæmis bent á að færeyskar útgerðir greiða hvorki aflagjald né kolefnisgjald eins og íslenskar útgerðir gera.
  • Launatengd gjöld á Íslandi eru mun hærri en í Færeyjum og munar þar mestu um tryggingagjald og lífeyrisgreiðslur. Þessar staðreyndir hafa áhrif á allan samanburð.
  • Kolmunnaveiðar Íslendinga fara að mestu fram í færeyskri lögsögu og 90% veiðanna á fjarlægum miðum. Tilkostnaður íslenskra útgerða við veiðarnar er mun meiri en hjá færeyskum ekki síst vegna þess að þær hafa lengra að sækja.

 

Ef á að bera saman útgerð á Íslandi og í Færeyjum og tekjur hins opinbera af henni þarf að taka tillit til fjölmargra þátta og ef það er ekki gert verður samanburðurinn villandi og leiðir til galinnar umræðu. Upplýst umræða um þessi málefni sem er laus við sleggjudóma er okkur nauðsynleg.

 

Deila: