Ríflega þúsund tonn eftir af strandveiðipottinum

Deila:

Um 1.160 tonn eru eftir af úthlutuðum aflaheimildum í þorski til strandveiða. Útlit er fyrir að veiðarnar verði stöðvaðar í næstu viku. Um þetta er fjallað í Bændablaðinu. Þar er haft eftir Arthúri Bogasyni, formanni Landssambands smábátaeigenda að tími sé kominn til að auka aflaheimildir til strandveiða. Endurskoða þurfi að strandveiðar fái aðeins tíu þúsund tonn af 211 þúsund tonna veiðiheimildum.

Hann bendir á að sjómenn um allt land verði varir við mikinn fisk. „Ef þú spyrð mig þá er hreinlega ómögulegt að 700 sjómenn hringinn í kringum Ísland, sem allir hafa nákvæmlega sömu sögu að segja, hafi svona kolrangt fyrir sér hvað ástand fiskistofna varðar. Ráðherra hefur hins vegar fulla heimild til að auka við strandveiðipottinn í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin og það myndi gleðja okkur gríðarlega. Við sjáum til hvað verður í þeim efnum,“ segir hann.

Deila: