Kaup Ramma á Sigurbirni standast samkeppnislög

Deila:

„Kaup Ramma hf. á Sigurbirni ehf. fela í sér samruna í skilningi samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til þess að hafast frekar að í máli þessu.“ Svo segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins  um kaup Ramma í Fjallabyggð á öllu hlutafé í útgerðar og fiskvinnslufyrirtækinu Sigurbirni í Grímsey.

Með kaupunum fara frá Grímsey aflaheimildir sem nema ígildi um 1.000 tonn af þorski, sem er um helmingur aflaheimilda sem tengdur hefur verið eynni og báturinn Þorleifur. „Við meðferð málsins óskaði Samkeppniseftirlitið upplýsinga og sjónarmiða frá aðilum sem kunna að verða fyrir áhrifum af samrunanum. Á meðal framkominna sjónarmiða eru áhyggjur af byggð í Grímsey, gangi samruninn eftir. Þau sjónarmið varða hins vegar ekki mat á samkeppnislegum áhrifum samrunans, eins og mál þetta horfir við,“ segir í úrskurðinum. Þar segir ennfremur:

„Við mat á samkeppnislegum áhrifum samruna ber að líta til þess hvort samruninn leiði til þess að markaðsráðandi staða skapist eða styrkist eða hvort samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c. samkeppnislaga. Í 4. gr. samkeppnislaga kemur fram að markaðsráðandi staða sé fyrir hendi þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrk að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og að það geti að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda. Í þessu máli er um að ræða samruna fyrirtækja sem starfa að nokkru leyti til á sömu eða tengdum mörkuðum. Starfsemi sú er mál þetta varðar er annars vegar veiðar á fiski við Ísland og hins vegar vinnsla og sala á sjávarafurðum, en sú starfsemi fer að nokkru marki fram utan Íslands. Að gögnum málsins virtum er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að kaup Ramma á Sigurbirni leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Af þeim sökum er það niðurstaða eftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna þessa samruna, s.s. með íhlutun í formi ógildingar eða setningu skilyrða.

Ákvörðunarorð „Kaup Ramma hf. á Sigurbirni ehf. fela í sér samruna í skilningi samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til þess að hafast frekar að í máli þessu.“

Deila: