Skagfirðingar mótmæla breytingum á strandveiðikerfinu

Deila:

Í nýrri ályktun Drangeyjar, smábátafélags Skagafjarðar er mótmælt fyrirætlan Svandísar Svavarsdóttur, matvæltráðherra, að hverfa frá þeirri meginstefnu að heimila 12 veiðidaga í mánuði fjóra mánuði á ári og taka upp „ólympískar“ veiðar á hverju veiðisvæði þess í stað. Í ályktun skorar félagið á ráðherra og stjórnvöld að tryggja að 12 daga veiðireglan verði í gildi allt komandi strandveiðitimabil enda hafi Hafrannsóknastofnun lýst því yfir að 2000-3000 tonna frávik á strandveiðivertíð hafi takmörkuð áhrif á þorskstofninn, auk þess sem breytileiki aflareglu rúmi vænanlegan heildarafla á strandveiðum hvers árs.

Handfæri og botndregin veiðarfæri eiga ekki samleið
Félagsmannafundur Drangeyjar á dögunum ályktaði einnig um friðun hafsvæða og lýsti þar stuðningi við áform stjórnvalda um aukna friðun umhverfis landið.
„Hins vegar mótmælir félagið harðlega þeirri hugmynd að setja veiðar með botndregnum veiðarfærum og handfæraveiðar undir sama hatt þegar kemur að verndun á lífríki sjávarbotnsins, enda stríðir það gegn alþjóðlegum sjónarmiðum og raunar gegn heilbrigðri skynsemi. Þá bendir félagið á að rík ástæða er til að auka friðun lífríkis á grunnslóð, t.d. með því að takmarka veiðar með botndregnum veiðarfærum inn á fjörðum og flóum.“
Einnig lýsir félagið furðu sinni á áformum stjórnvalda að heimila auknar botntrollsveiðar nálægt landi,  jafnvel upp að 3 mílna landhelgi í nafni umhverfisverndar og minni kolefnislosunar við fiskveiðar. „Fremur ætti að stefna að því að veiðar með slíkum veiðarfærum færu að mestu leyti fram utan 12 mílna landhelgismarka.“

 

 

Deila: