Neyðarkall til alþingismanna
Kjaraviðræðum sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lauk um miðnættið í gær. Þá lágu fyrir drög að nýjum kjarasamningi. Þar er gert ráð fyrir að dagpeningar sjómanna verðir skattfrjálsir en til að niðurstaða fáist í málin og kjarasamningar staðfestir þarf vilyrði sjávarútvegsráðherra fyrir þessu fyrirkomulagi.
Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í rúma tvo mánuði. Gefinn var út loðnukvóti til íslenskra skipa nú í vikunni upp á tæp 200.000 tonn. Sjávarútvegsráðuneytið tekur að útflutningsverðmæti þess magns sé um 17 milljarðar króna. Loðnan er á hraðri leið suður með austurlandi og þaðan vestur um fyrir Suðurlandi og inn á Faxaflóa og Breiðafjörð. Þar hrygnir hún og drepst að hrygningu lokinni. Þar er því mikið í húfi.
„Viðræður SFS og sjómannasamtakanna hafa gengið vel liðna daga og sameiginlegur skilningur er með aðilum um helstu kröfur. Líkt og komið hefur fram í umræðu hafa sjómenn talið að leiðréttingar sé þörf á ójafnræði í skattalegri meðferð á dagpeningum. Sjómenn telja mikilvægt að úr þessu verði bætt. Þar sem um réttlætismál er að ræða hefur þetta veruleg áhrif í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Ráðherra hefur lagt til að fram fari heildstæð greining og skoðun á fæðis- og dagpeningum almennt á vinnumarkaði. Greining þessi er vafalaust jákvæð. Enn stendur þó útaf að fá viðurkenningu stjórnvalda á skattalegri meðferð á dagpeningagreiðslum til sjómanna,“ segir í tilkynningu frá Sjómannasambandi Íslands um samningastöðuna.
Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness setti svo eftirfarandi pistil inn +a fésbókarsíðu sína eftir að fundinum lauk í nótt.
„Rétt í þessu lauk gríðarlega erfiðum fundi hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, en þessi erfiði fundur skilaði loks þeirri niðurstöðu að drög að nýjum kjarasamningi sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lá orðið klár fyrir.
Það eina sem útaf stóð var að fá vilyrði frá sjávarútvegsráðherra fyrir því að stjórnvöld myndu liðka fyrir því að dagpeningar sjómanna yrðu meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og hjá öðru launafólki sem þarf að greiða fyrir fæðiskostnað vegna starfs síns víðsfjarri heimili sínu.
Ég tel mikilvægt að allir átti sig á því að við erum alls ekki að gera kröfu á stjórnvöld, heldur einungis að óska eftir að þau liðki fyrir því að sjómenn sitji við sama borð og annað launafólk. Ég tel líka mjög mikilvægt að minna alla á að það er mjög algengt að stjórnvöld liðki fyrir kjarasamningsgerð og það er t.d. ætíð gert þegar kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði eru gerðir, ætíð!
Það er skemmst frá því að segja að fulltrúar sjómanna áttu fund með sjávarútvegsráðherra þar sem þessu var hafnað! Hins vegar lagði sjávarútvegsráðherra fram tillögu þar sem stjórnvöld væru reiðubúin að fram færi heildstæð greining á því hvernig farið er almennt með fæðiskostnað og greiðslur vegna fæðis í skattlegu tilliti. Takið eftir þessi skoðun á að liggja fyrir eigi síðar í lok apríl!
Ég bara spyr, af hverju hafa stjórnvöld ekki verið búin að þessu í ljósi þess að sjómenn hafa verið að kalla eftir að verða meðhöndlaðir eins og annað launafólk þegar kemur að dagpeningum vegna fæðiskostnaðar?
Á þessari forsendu lá orðið fyrir uppúr miðnætti að sjómenn gátu ekki undir nokkrum kringumstæðum klárað nýjan kjarasamning því það er ljóst að þetta atriði skiptir hagsmuni sjómanna miklu máli. Þetta er réttlætismál!
Það er þyngra en tárum taki að eftir rúmlega tveggja mánaða verkfall og eina af erfiðustu vinnudeilum Íslandssögunnar skuli sjávarútvegsráðherra ekki hafa verið tilbúinn að liðka fyrir þessu réttlætismáli fyrir íslenska sjómenn. Ef ráðherrann hefði verið tilbúinn til þess hefði verði hægt að leggja kjarasamninginn strax í dóm sjómanna og ef sjómenn samþykktu hann hefði flotinn getað verið kominn til veiða innan nokkra daga!
Það er mjög mikilvægt að allir átti sig á því að íslenskir sjómenn eru alls ekki að biðja um neina ölmusu heldur einungis að fá að sitja við sama borð og annað launafólk sem þarf að greiða fæðiskostnað þegar það starfar fjærri sínu heimili. Mikilvægt er að allir átti sig á því að sjómenn greiða fyrir fæði sitt!
Ég verð að segja alveg eins og er að íslenskir sjómenn sem hafa fært miklar fórnir við sín störf og gert það að verkum að við búum við þau lífsgæði sem við teljum svo sjálfsögð í dag eiga það skilið að þetta réttlætismál nái í gegn. Já munum að það er íslenskur sjávarútvegur með sjómenn og fiskvinnslufólk í broddi fylkingar sem hafa byggt þetta land upp í gegnum áratugina.
Ég biðla, reyndar má segja að ég sendi neyðarkall til Alþingsmanna um að taka stöðu með íslenskum sjómönnum og koma þessu réttlætismáli í gegn þannig að sjómenn sitji við sama borð og annað launafólk hvað frádrátt á fæðiskostnaði varðar þegar menn starfa víðs fjærri sínu heimili.
Við höfum lagt okkur gríðarlega fram við að klára þessa erfiðu deilu því við gerum okkur svo sannarlega grein fyrir okkar ábyrgð við að ná að klára samning þannig að hægt sé að kjósa um hann og koma tannhjólum sjávarútvegsins um hinar dreifðu byggðir landsins af stað á nýjan leik, íslensku þjóðarbúi til heilla! Það verður hins vegar ekki gert ef þetta réttlætismál nær ekki í gegn.