Sjúkur í maríneraða síld

Deila:

Maður vikunnar byrjaði ekki barnungur í fiski eins sumir aðrir. En síðan hann byrjaði á fulli frá 1987 hefur hann verið heltekinn af útveginum. Hann er einn af skeleggustu forystumönnum samtaka í sjávarútvegi; nánar tiltekið framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda frá stofnun samtakanna.

Nafn?

Örn Pálsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur og uppalinn á Akureyri.

Fjölskylduhagir?

Kona mín heitir Regína Þorvaldsdóttir – börnin eru fimm og jafnmörg barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Að hluta til sumarið 1986 og hef verið heltekinn sjávarútveginum frá áramótum 1987.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Þessi spurning er snúin.  Ætli ég kjósi ekki að setja fjölbreytnina í fyrsta sæti.  Sífeldar óvæntar uppákomur og verkefnin óútreiknanleg.  Samskipti við félagsmenn skemmtileg og fróðleg.  Aðstæður gríðarlega mismunandi, skóli sem er hlaðinn námsefni sem gaman er að kljást við.

En það erfiðasta?

Það reynir oft á að svara um hæl, þegar stjórnvaldið bíður á línunni eftir afstöðu félagsins um málefni sem hefur fengið litla umræðu.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Á ráðstefnu í Lissabon 1989, þegar málefnið var að lýsa þeim vandamálum sem smábátaeigendur ættu við að glíma á Íslandi.  Á undan mér talaði fulltrúi Filippseyinga afar grannholda.  Hans vandamál var að öðrum toga en okkar hér, sagðist hafa fengið lán fyrir olíu á bátinn fyrir síðustu sjóferð, hefði veitt tvo fiska og var annar eitraður.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Arthur Bogason.

Hver eru áhugamál þín?

Ég er mikill íþróttaáhorfsfíkill.  Þá er hlustun á bækur og fróðlega þætti í útvarpinu í miklu uppáhaldi.  Þjóðfélagsmálin og lestur.    

 Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Það sem kemur úr sjónum er mitt uppáhald.  Þar koma sterkt inn ýmiss konar réttir þar sem þorskhnakkar eru uppistaðan.  Þá er ég sjúkur í marineraða síld, en sökum þess hvað kröfustigið er orðið hátt hvað hana varðar þrengir stöðugt við valið.

Hvert færir þú í draumfríið?

Þangað sem ekki er hægt að ná í mig!  Nei, að öllu gamni slepptu þá er Japan þar efst á lista.   

Á myndinni er Örn ásamt Páli syni sínum í Kop-stúkunni á Anfield í Liverpool.

 

 

Deila: