Þór dregur Akurey til hafnar

Deila:

Varðskipið Þór er nú með ísfisktogarann Akurey AK-10 í togi á leið til hafnar í Reykjavík eftir að skipið varð vélarvana djúpt vestur af Vestfjörðum. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk beiðni um aðstoð frá skipstjóra Akureyjar á sjöunda tímanum í morgun.

Varðskipið Þór var þá á Bíldudal og hélt þegar af stað til móts við Akurey. Um klukkan 13:00 var Þór kominn að Akurey og tók skamma stund að koma taug á milli skipanna. Að því búnu hélt varðskipið áleiðis til Reykjavíkur með Akurey í togi en gert er ráð fyrir að skipin verði komin til hafnar um hádegisbil á morgun.

Það var um fimmleytið í nótt sem leið að svokölluð undirlyftustöng í aðalvélinni á ísfisktogaranum Akurey AK brotnaði.
Að sögn Eiríks Jónssonar skipstjóra var togarinn staddur í kantinum norður af Patreksfirði er óhappið varð. Rúmur sólarhringur var eftir á veiðum en um 140 tonna afli er í lest skipsins. Besta veður er á svæðinu og vel gekk að koma dráttartaug fyrir á milli Akureyjar og Þórs.

Gísli Jónmundsson, skipaeftirlitsmaður hjá HB Granda, segir að fljótlega eftir óhappið hafi verið drepið á aðalvélinni. Vélstjórar skipsins hafi kannað hvort orðið hafi meiri skemmdir en þeir séu vongóðir um að svo sé ekki. Gangi allt að óskum ætti viðgerð að ljúka á miðvikudaginn.

Deila: