Minna mælist af norsk-íslensku síldinni

Deila:

Heildar bergmálsvísitala fullorðinnar norsk-íslenskrar síldar er nú metin 4,2 milljón tonn í samanburði við 5,4 milljón tonn árið 2016. Vísitölur síðustu ára hafa sveiflast lítillega en heilt yfir sýna þær minnkandi stofn. Mælingarnar benda til þess að 2013 árgangurinn sé nálægt meðalstærð og því veikari en sumar fyrri vísbendingar gáfu til kynna. Síðasti stóri árgangurinn í stofninum, frá 2004, er ásamt 2005 árganginum ennþá stór hluti lífmassans eða 26% hans samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun.

Lokið er samantekt á niðurstöðum alþjóðlegs uppsjávarleiðangurs frá maí sl. í Noregshafi og aðliggjandi hafsvæðum. Eitt af meginmarkmiðum leiðangursins var að meta magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar og kolmunna. Því til viðbótar voru gerðar mælingar til að kanna ástand hafsins og vistkerfisins, m.a. með rannsóknum á magni átustofna.

Þátttakendur í leiðangrinum, auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar, voru rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Rússlandi. Hafrannsóknastofnun kynnti í lok maí  bráðabirgðaniðurstöður íslenska hlutans en nú liggja fyrir sameiginlegar niðurstöður. Eins og áður kynntar niðurstöður íslenska hluta leiðangursins sýndu, var útbreiðsla norsk-íslenskrar síldar í maí þetta árið vestlægari en áður. Norðvestur af Noregi mældist einnig nokkurt magn en þar var aðallega um að ræða fjögurra ára síld (árgangur frá 2013) meðan að fullorðni hlutinn var vestar. Heildar bergmálsvísitala fullorðinnar síldar var 4,2 milljón tonn í samanburði við 5,4 milljón tonn árið 2016. Vísitölur síðustu ára hafa sveiflast lítillega en heilt yfir sýna þær minnkandi stofn. Mælingarnar benda til þess að 2013 árgangurinn sé nálægt meðalstærð og því veikari en sumar fyrri vísbendingar gáfu til kynna. Síðasti stóri árgangurinn í stofninum, frá 2004, er ásamt 2005 árganginum ennþá stór hluti lífmassans eða 26% hans.

Í Barentshafi beinist leiðangurinn að uppvaxandi árgöngum og var fjöldi eins árs síldar (2016 árgangurinn) meiri en undanfarin ár. Þó er ekki tímabært að tala um stóran árgang þar sem  mikil óvissa er á þessari mælingu og langur tími þar til að hann kemur inn í veiðistofninn.

Norsk-islensk síld útbreiðsla og þéttleiki

Kolmunna var að finna utan landgrunns á mest öllu athugunarsvæðinu ef undan er skilið svæði þar sem kalda Austur-Íslands strauminn austur af Íslandi er að finna. Mesti þéttleikinn var á suðurhluta athugunarsvæðisins svo og með landgrunnsbrún Noregs. Eins og útbreiðslumyndin sýnir nær þessi leiðangur ekki yfir allan kolmunnastofninn. Niðurstöðurnar gefa þó vísbendingar um stærð nýrra árganga og sýna að 2014 og 2015 árgangarnir eru stórir, eins og fyrri mælingar hafa sýnt, en hins vegar er 2016 árgangurinn lítill.

Hækkun var á vísitölum um magn átu fyrir allt svæðið. Um miðbik og austurhluta svæðisins eru vísitölurnar í ár sambærilegar við meðaltal áranna þegar vísitalan var sem hæst (~1995-2003). Norðaustur af Íslandi, þar sem jafna voru hæstu gildin, eru vísitölurnar ennþá lágar í sögulegu samhengi þótt þær séu hækkandi.

Hitastig sjávar var yfir meðaltali síðasta 21 árs á öllum dýpum á mestöllu hafsvæðinu. Átti það sérstaklega við suður- og vesturhluta rannsóknarsvæðisins.

Þessar niðurstöður verða meðal annars notaðar á fundi Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) í lok ágúst nk. þar sem vinna við stofnstærðarmat og ráðgjöf þessara uppsjávarfiskistofna fer fram. Meira um niðurstöður úr leiðangrinum er að finna í skýrslunni IInternational Ecosystem Survey in Nordic Sea (IESNES) May-June 2017 (.pdf)

Deila: