Framhaldið verður mun auðveldara

Deila:

Nú við heimkomu Akureyjar AK tekur við niðursetning á búnaði á millidekki og sjálfvirku lestarkerfi frá Skaganum 3X á Akranesi og mun sú vinna fara fram í heimahöfn skipsins. Akurey er systurskip Engeyjar RE sem kom til landsins í lok janúar sl. Það skip fór nýlega í sína fyrstu veiðiferð, eða svokallaðan tæknitúr, þar sem reynt var á nýja búnaðinn sem er að mestu leyti tölvustýrður. Sams konar búnaður verður nú settur í Akurey og eru menn sammála um að reynslan af Engey muni auðvelda alla vinnuna sem fram undan er.

Einn þeirra, sem fór með í fyrsta túr Engeyjar, var Hrannar Einarsson, flokksstjóri hjá Skaganum 3X, en hans hlutverk var aðallega að fylgjast með því hvernig búnaðurinn frá fyrirtækinu virkaði við raunverulegar aðstæður. Hrannar segir í samtali við Þúfu, fréttabréf HB, Granda að tækninýjungar sem þessar hafi ekki áður verið settar upp í íslensku fiskiskipi og hið sjálfvirka lestarkerfi hafi verið stærsti óvissuþátturinn fyrir sjálfa veiðiferðina. Vel hafi gengið að koma kerfinu fyrir en virknina var ekki hægt að meta nema við raunverulegar aðstæður.

Auk tíu manna áhafnar fóru með sérfræðingar frá Skaganum 3X, Naust Marine, Frosti og Brimrúnu, og alls voru 22 menn um borð í túrnum. „Við byrjuðum á að taka lítið hol af bolfisk til þess að prófa grunnkerfið, koma aflanum í kælingu í SUB-CHILLING™ tönkunum og þaðan í lestina. Restina af túrnum vorum við síðan aðallega á karfaveiðum og fengum að reyna á kerfið, þar sem við keyrðum 10-12 tonna hol í gegnum það á öðrum degi. Mjög vel gekk að keyra aflann í gegnum kerfið. Í heildina séð þá gekk túrinn ótrúlega vel miðað við aðstæður. Þetta er flott kerfi, gott skip og afbragðsgóð áhöfn. Það skipti miklu máli að öll áhöfnin mætti til skips með opinn huga og jákvæðni gagnvart þessu stóra verkefni. Þessi nýi búnaður verður mikið framfaraskref fyrir áhafnir nýju ísfisktogaranna enda hverfa með tilkomu hans mörg afar erfið og hættuleg störf,“ segir Hrannar Einarsson.

 

Deila: