Gríðarlegt framfaraskref
,,Mitt hlutverk hefur aðallega falist í því að vinna með hönnuðum skipanna og koma á framfæri þeirri miklu þekkingu sem margt starfsfólk HB Granda býr yfir. Þetta hefur skilað sér í ýmsum þáttum og ég get nefnt grunnhugmyndina að útfærslu á sjálfvirka lestarkerfinu og löndun á afla sem dæmi. Þar er verið að taka gríðarlegt framfaraskref og nútímavæða vinnu sem hefur verið óbreytt frá því snemma á áttunda áratugnum.“
Þetta segir Guðmundur Hafsteinsson hjá skipaþjónustu HB Granda í samtali við Þúfu, fréttabréf HB Granda. Hann hefur unnið náið með Alfreð Tuliníus skipaverkfræðingi og aðalhönnuði nýju ísfisktogara HB Granda, að útfærslu á ýmiss konar tæknilausnum um borð sem nýtast munu áhöfnum og útgerð. Guðmundur segir að hann hafi einnig unnið með sérfræðingum Skagans 3X, sem á heiðurinn af sjálfvirka lestarkerfinu og ýmsum búnaði á millidekki, en nokkuð minna hafi orðið úr því samstarfi en ella vegna langdvala hans í Tyrklandi á smíðatíma Engeyjar RE.
„Lestarkerfið mun létta skipverjum mjög erfið störf og í raun má segja að lestarrými þessara nýju skipa verði eins og í nútíma lagerhúsi. Mannshöndin tekur ekki við fyrr en aflinn er kominn upp á dekk og jafnvel þar verður tæknin í aðalhlutverki. Það hafa orðið mörg alvarleg slys, sem betur fer ekki hjá okkur, við hífingu á körum frá dekki og upp á bryggju. Við hyggjumst lágmarka líkur þessara slysa með því að það mun enginn maður koma nálægt fiskkari sem er á ferð. Til þess fengum við tyrkneska fyrirtækið Mariner til að smíða fyrir okkur lyfti- eða löndunarbúr. Maðurinn, sem stýrir hífingarkrananum, mun stjórna þessu búri. Það lokast utan um fimm kara stæðu á dekkinu og körin festast hvert við annað áður en þau eru hífð upp á bakkann, þar sem lyftarar taka við þeim,“ segir Guðmundur en að hans sögn verður rými fyrir 635 kör eða rúmlega 190 tonna afla í lestum nýju ísfisktogaranna.
,,Annað sem nefna má er að nánast öll kerfi skipanna eru rafknúin og leysa því vökvakerfi af hólmi. Grunnhugsunin er sú að draga úr mengun, auka orkusparnað og gera skipin eins vistvæn og framast er kostur. Framangreindar útfærslur bera vitni mikillar framsýni hjá stjórnendum HB Granda, en því er ekki að leyna að aukin tækni og sjálfvirkni mun kalla á aukna vinnu og eftirlit af hálfu vélstjóranna. Það er því lykilatriði að vera með góða og mjög hæfa menn í þeim störfum.“
Engey fór fyrir sjómannadagshelgina í sína fyrstu veiðiferð á meðan Akurey var á siglingu til Íslands frá Tyrklandi. Þriðja skipið, Viðey RE, er enn í smíðum. ,,Það má líta á þessa fyrstu ferð Engeyjar sem hreinan „tæknitúr“, þ.e. að það er verið að fínstilla forritin fyrir tölvustýringarnar og finna vankantana. Það mun örugglega taka eina tvo til þrjá mánuði í viðbót þar til að allt virkar 100% rétt en stefnt er að því að skipið verði í fullum rekstri allan þann tíma. Sú vinna sem nú er unnin með Engey mun síðan öll nýtast er við tökum við Akurey og Viðey. Gengið verður frá millidekkinu og lestarbúnaði og forritin úr Engey færð yfir. Við erum þannig reynslunni ríkari vegna þeirrar þekkingar sem vinnan við Engey hefur fært okkur,“ segir Guðmundur Hafsteinsson.