Að fleygja barninu út með baðvatninu!

Deila:

„Félag Makrílveiðimanna telur óásættanlegt að færa einhvern hluta heimilda félagsmanna sinna á silfurfati til stærstu útgerða landsins. Það væri að fleygja barninu út með baðvatninu ef stjórnkerfi makrílveiða til síðustu átta ára væri kollvarpað til að örfá skip gætu veitt allan makrílkvóta Íslendinga. Mikilvægt er að stöðva skaðabótaklukku dóms hæstaréttar og hvetur því Félag makrílveiðimanna Alþingi til að festa núverandi stjórn veiða í sessi með sérlögum.“

Svo segir í fréttatilkynningu Félags makrílveiðimanna  vegna dóms hæstaréttar um skyldu stjórnvalda til að setja makríl í kvóta.  Formaður félagsins er Unnsteinn Þráinsson. Fréttatilkynningin er annars svo hljóðandi:

„Hæstiréttur felldi dóm 6. desember sl. í máli Hugins ehf. gegn íslenska ríkinu þar sem rétturinn fellst á að fyrir vertíðina 2011 hefði ríkið átt að vera búið að kvótasetja makrílveiðar.

Þær útgerðir sem fyrstar héldu til veiða voru eðlilega uppsjávarútgerðir enda fékkst makríll fyrst sem meðafli við síldveiðar fjarri landi. Þegar á leið dreifðist makríll umhverfis allt landið sem gaf öðrum útgerðum tækifæri til veiða. Vilji stjórnvalda hefur verið skýr frá 2010, að gefa fleiri útgerðum, en  þessum fáu uppsjávarfyrirtækjum, tækifæri til að stunda veiðar á makríl.

Þetta hefur verið staðfest af sex sjávarútvegsráðherrum í fjórum stjórnmálaflokkum. Samkvæmt dómnum hefur engum þeirra tekist að framkvæma vilja stjórnvalda með nógu lagalega réttum hætti. Til þess þarf nú að setja sérlög eða bæta við gildandi úthafsveiðilög.

Vegna þessara misgjörða og hálfkáks er ríkissjóður nú skaðabótaskyldur. Útgerðirnar vilja hinsvegar ekki að ríkið greiði þeim skaðabætur, heldur að þeim verði úthlutað þeim heimildum sem aðrir hafa fengið til afnota í nærri áratug. Talsverður hluti skaðabótakrafna útgerðanna er líklega fyrndur og verður bótakrafan því ekki talin í tugum milljarða heldur líklega nær þrem en tíu milljörðum. Uppsjávarútgerðirnar hafa því meiri hagsmuni af heimildunum en bótunum.

Yfir hundrað útgerðir króka-, ísfisk- og frystiskipa um allt land hafa stundað veiðar á makríl frá árinu 2010 á grundvelli núverandi stjórnar makrílveiða og hafa réttmætar væntingar til þess að veiðum verði haldið áfram. Það eru því allar líkur á því að hærri skaðabótakrafa yrði samþykkt af hæstarétti ef taka ætti núverandi heimildir af þessum útgerðum.

Lausn málsins fellst því ekki í að úthluta kvótanum nú til uppsjávarútgerðanna m.v. veiðireynslu áranna 2007-2010, enda stæðist sú úthlutun heldur ekki núgildandi úthafsveiðilög. Í 5. gr. laganna segir mjög greinilega að  aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin „á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú  bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum“. Af þessu leiðir að ekki er hægt að horfa  til annarra ára við kvótasetningu en undangengina sex ára.“

Á myndunum er Unnsteinn að landa makríl í Keflavík.
Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.

Deila: