Veiðigjöldin nema sexföldum hagnaði

Deila:

Smábátasjómenn borga hagnað sinn sexfaldan til baka í veiðigjöldum, segir formaður Landssambands smábátaeigenda. Hann segir smábátasjómenn gjalda fyrir bókhaldsbrellur hjá stærri útgerðum. Þetta sagði Axel Helgason, formaður LS, í samtali við RUV í gær.

Til stendur að taka veiðigjöld í sjávarútvegi til endurskoðunar og að þar verði tekið tillit til lítilla og meðalstórra útgerða.

„Okkar viðbrögð eru þau að við vitum tölurnar frá Hagstofunni fyrir báta undir 10 tonnum og þær tölur eru að árið 2015 voru þeir að hagnast um 71 milljón og miðað við veiðiheimildirnar í ár fyrir þennan bátaflokk þá borgum við til baka af 71 milljónar króna hagnaði fyrir árið 2015, 430 milljónir til ríkisins,“ segir Axel Helgason formaður Landssambands smábátaeigenda.
Eruð þið að borga til baka langt umfram raunverulegan hagnað?
„Við erum að borga hagnaðinn 2015 sexfalt til baka.“

Axel Helgason

Axel Helgason

Skýringuna á þessu segir Axel vera þá að þegar mat á afkomu er lagt, sé eitt látið yfir alla ganga. Smábátaútgerðin sé þar í flokki með fyrirtækjum í blönduðum rekstri og telur hann að veiðigjaldanefnd eða Hagstofan hafi ekki náð að aðgreina almennilega hvað tilheyri hverjum. Ýmsum bókhaldsbrellum sé beitt eins og virðisrýrnun aflaheimilda, bakfærður sé gengishagnaður, og afskriftir og sala eigna séu inni í grunninum sem myndar 31 milljarðs króna grunn þar sem þriðjungur er síðan tekinn af til álagningar á greinina. Ekkert af þeim atriðum eigi við smábátaútgerð. Hann segir því smábátaútgerðina gjalda fyrir bókhaldsbrellur stærri útgerða.

„Já það má alveg orða það þannig og við erum líka að borga rúmlega 10% af veiðigjöldunum okkar út af vinnslu stórútgerðarinnar, það er bara klárt og borðleggjandi.“

Axel segir langmestan hluta afla smábáta fara beint á markað en ekki til eigin vinnslu eins og víða hjá stærri útgerðum. Hann segir smábátasjómenn hafa reynt að vekja athygli stjórnvalda á þessu og fleiru.

„Við höfum kynnt samþykkt stjórnar Landssambands smábátaeigenda fyrir formanni atvinnuveganefndar, eins höfum við sent ráðuneytinu samþykktir stjórnar. Þær samþykktir kveða á um þrepaskiptingu veiðigjalds með tilliti til aflamagns og að það sé ívilnum fyrir þá sem landa á fiskmarkaði. Mér sýnist af því sem ég hef heyrt að það sé í umræðunni að taka tillit til þess eða allavega til skoðunar,“ segir Axel Helgason
 

Deila: