Hoffellið í vanda
Um kl. 18.00 í gærkvöldi varð flutningaskipið Hoffell sem er í eigu Samskipa, vélarvana þegar það var statt fyrir mynni Reyðarfjarðar. Skipið var að koma frá Reyðarfirði á leið sinni til Rotterdam þegar það missti vélarafl á aðalvél skipsins. Ljósavélar skipsins voru virkar.
Strax var haft samband við Landhelgisgæsluna sem ræsti út þyrlu frá Reykjavík og sendi á staðinn fjölveiðiskipið Jón Kjartansson. Jafnframt voru ræst út björgunarskip af svæðinu.
Um borð í Hoffellinu er 13 manna áhöfn og amaði ekkert að áhöfninni. Ástandið hélst stöðugt og veður skaplegt á svæðinu, en útlit var fyrir versnandi veður. Um borð í Hoffelli er talsvert magn af varningi.
Unnið var að því að koma aðalvél skipsins í gang þannig koma mætti því í örugga höfn og báru þær tilraunir árangur, og sigldi skipið hægri siglingu fyrir eigin vélarafli inn á Eskifjörð.
Hoffell kom svo til hafnar á Eskifirði skömmu fyrir klukkan hálf tólf í gærkvöldi og gekk siglingin að óskum. Viðgerð stendur yfir en ekki er vitað á þessari stundu hvað hún tekur langan tíma.