Allt sem að kjafti kemur

Deila:

Að stjórna höfn hlýtur að vera sérstakt starf. Búa skipum örugga höfn og taka á móti fiskinum, sem er undirstaða afkomu þjóðarinnar, hvað sem aðrir segja, er mikilvægara en flest annað. Einn af þeim sem sinna þessu mikilvæga starfi er hafnarstjórinn í Grindavík, einni stærstu fiskihöfn landsins. Hann er maður vikunnar á Kvótanum í dag.

Nafn?

Sigurður Arnar Kristmundsson.

Hvaðan ertu?

Grindavík.

Fjölskylduhagir?

Giftur og tvær stelpur.

Hvar starfar þú núna?

Hafnarstjóri Grindavíkurhöfn.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Byrjaði 12 ára, sem sagt ekki fyrir svo löngu  í saltfiskvinnslu hjá Guðmundi á Hópi 

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það eru að mörgu leyti forréttindi að vinna við og þjónusta íslenskan sjávarútveg sem hefur mikla aðlögunarhæfni og er stöðugt að þróast, en stendur þó líka gömlum grunni. 

En það erfiðasta?

Ætli það sé ekki óreglulegur vinnutími og vond veður til sjós. Vond veður eru reyndar enn frekar pirrandi. 

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í  störfum þínum?

Mér fannst Sigmar Björnsson rosa skrítinn karl þegar ég byrjaði til sjós á Þórshamri. Vinnufyrirkomulagið þar um borð var ekkert endilega alltaf hugsað til þess að auðvelda vinnuna sem gerði ekkert til því Simmi bætti það allt upp með vinnugleði og dugnaði. Eitt sinn vorum við að brasa við það að horfa á Simma hífa upp blýabugtir ofanaf snurpuvírnum þegar ein færan slitnaði í gilskróknum og hönkin slóst í Simma, sem féll í dekkið, spratt þó upp eins og gormur þaut niður lúguopið fyrir framan brú með skurð á enninu. Kom aftur upp um sama lúguop alblóðugur en núna kominn með hjálm á höfuðið og hélt áfram með það sem frá var horfið. Simmi óð alltaf fyrstur manna í bras og vesen og það hætti að verða skrítið eftir dálítinn tíma. 

​​Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Enginn spurning það er hann Sigmar Björnsson heitinn, vinnuhestur og ljúfmenni.

Hver eru áhugamál þín?

Bara eins og hjá fegurðardrottningunum; fjölskyldan, ferðalög og útivist. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Allt sem að kjafti kemur, aðallega það sem konan eldar.

Hvert færir þú í draumfríið?

Mexico, hef komið þangað þrisvar sinnum. Það væri gaman að fara svo enn sunnar.

 

 

Deila: