Stærsta grjótið

Deila:

Síðastliðnar tvær vikur hefur Ljósafell verið á svo kölluðu Togararalli. Þá er skipið í þjónustu Hafrannsóknarstofnunnar og fer um fiskimiðin og veiðir en með svolítið öðru sniði en venjulega.   Í verkefni sem þessu er farið eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi á fiskimið umhverfis landið sem kallast stöðvar. Ljósafellið fór á 145 stöðvar og togaði í um eina klukkustund á hverri stöð. Þegar aflinn kemur síðan  um borð taka við venjubundin störf sjómannanna þar sem fiskurinn er blóðgaður en síðan taka starfsmenn Hafrannsóknarstofnunnar við (sem að þessu sinni voru sjö talsins)  og gera allskyns mælingar á fiskunum.  Þeir vigta og mæla og aldursgreina fiskinn með því að skoða á honum kvarnirnar. Það kallast að kvarna fisk. Frá þessu er sagt á heimasíðu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Ljósafell grjót

Hjálmar Sigurjónsson var skipstjóri á Ljósfellinu í þessum túr, sem tók tvær vikur með einni millilöndun, og sagði Hjálmar að allt hefði gengi vel. Veðrið lék við sjófarendur og veiðin gekk vel.  Eftir túrinn var aflinn kominn í 170 til 180 tonn sem fór allur á markað.   Þegar Hjálmar var inntur eftir því hvort að ekki kæmu margir furðufiskar upp með trollinu þegar verið væri að draga út um allt sagði hann að þeir læddust nú alltaf með en sjálfur sæi hann nú ekki alla fiska sem kæmu um borð frá sinni vinnustöð í brúnni. En Hjálmar hefur verið til sjós lengi og man eftir að hafa fengið óvæntan afla eins og eitt sinn þegar veiða átti ýsu komu 7 tonn af urrara upp með trollinu og í annað sinn komu 10 tonn af háfi öllum að óvörum.  Hvoru tveggja tegundir sem eru ekki algengur togarafiskur. En í þessu nýafstaðna ralli kom líka óvæntur “afli”.  Með trollinu kom upp það stærsta grjót sem þeir Ljósafellsmenn höfðu nokkru sinni séð um borð í skipi. Um það voru þeir allir sammála.  Hjálmar sagði að ótrúlegt hefði verið að trollið hefði haldið og dró þá ályktun að grjótið hefði komið í trollið alveg í lokinn á drættinum.  “Ef trollið hefði dregið þetta grjót eftir botninum hefði komið gat, um það er ég alveg viss” sagði Hálmar.  Var grjótið svo stórt að notast var við spilið til að koma því aftur í sjóinn þar sem kraninn um borð tekur “bara” rúmlega 4 tonn.

Já, það býr margt í hafinu.

 

Deila: