Íslenskar sjávarafurðir kaupa írskt fyrirtæki

Deila:

Íslenskar sjávarafurðir hafa keypt meirihluta, 67%, í írska fiskvinnslufyrirtækinu Oceanpath Seafoods, sem selur ferskar, frystar og reyktar sjávarafurðir. Írska fyrirtækið er eitt það fremsta á sviði sölu ferskra sjávarafurða á Írlandi. Fyrri eigendur halda 33% hlut samkvæmt frétt á verðbréfamarkaði.

Oceanpath á einnig smásölufyrirtækið , Dunn’s of Dublin, sem er smásölufyrirtæki, stofnað 1822 og er þekktast fyrir sölu á reyktum laxi.

Eigendur Oceanpath til þessa eru Ecock fjölskyldan og er gert ráð fyrir að kaupin verði fullfrágengin í þessum mánuði. Kaupverð á 67% hluta eru talin í kringum 1,8 milljarðar króna.

Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Íslenskra sjávarafurða segir í tilkynningu að kaupin á Oceanpath séu liður í þeirri stefnu fyrirtækisins að auka umsvif sín í sölu fullunninna afurða í Evrópu. Stjórnendur írska félagsins búi yfir mikilli reynslu og það sé í fararbroddi í sölu ferskra og reyktra sjávarafurða á Írlandi. Þannig skapi það frábæran grundvöll til frekari vaxtar. Það gefi einnig kost á frekari vexti bæði á Írlandi og um allan heim með tilkomu nýrra afurða í söluneti ÍS og efli góða markaðsstöðu þess í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Á sama hátt geti Oceanpath styrkt stöðu sína á heimamarkaði sínum.

Alan Ecock, framkvæmdastjóri Oceanpath, segir að þessi viðskipti feli í sér mikla möguleika. Benedikt Sveinsson, stjórnarformaður Íslenskra sjávarafurða,tekur í sama streng og segir að sterk markaðsstaðafalli vel að markmiðum ÍS og félagið hlakki til samstarfsins  við Oceanpath.

 

 

Deila: