Heill sé höfðingjanum Halla Gísla

Deila:

Haraldur Gíslason er orðinn áttræður og trúi því hver sem vill. Áfanganum náði hann föstudaginn 25. febrúar. Samstarfsfólk á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar taldi mun líklegra en hitt að hann tæki sér frí í vinnu í tilefni stórafmælis. Nei, aldeilis ekki. Halli Gísla mætti sem endranær til að selja mjöl og lýsi um allar jarðir. Það þarf greinilega talsvert meira en áfanga upp á átta áratugi til að höfðinginn láti sig vanta á vinnustaðnum. Frá þessu er greint á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Skiptiborð VSV var óvenju rauðglóandi þennan tiltekna föstudag. Ótal samskipta- og viðskiptavinir hringdu stöðugt til að heyra í afmælisbarninu og koma á framfæri hamingjuóskum. Halli tók við góðum kveðjum í borðsímanum sínum því hann á ekki farsíma, hefur aldrei átt og mun tæplega eignast úr því sem komið er.

Vinahjörðin veit að hún hyllir Halla Gísla líka í fastlínukerfinu á næsta stórafmæli.

Í tilefni tímamótanna bar starfsfólk á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar á borð sérmerkta rjómatertu og fleira sætt og gott í fundarsalnum. Binni tók að sér tertuskurð og leysti afmælisbarnið út með blómum (Lilja B. Arngrímsdóttir tók myndirnar í afmælisteitinu).

  • Hjartanlega til hamingju, Haraldur Gíslason!

PS.

Það kemur afmæli Halla Gísla nákvæmlega ekkert við en þegar borgarfulltrúinn Vigdís Hauksdóttir tilkynnti í gær að hún gæfi ekki kost á sér til endurkjörs rifjaðist upp heimsókn hennar til Vestmannaeyja fyrir nokkrum árum. Hún lagði leið sína í fiskimjölsverksmiðju VSV til að líta á nöfnu sína, nýja skilvindu sem starfsmenn þar á bæ nefndu eftir þessum þáverandi alþingismanni Framsóknarflokksins.

Vel fór með þeim nöfnum. Að heimsókn lokinni skrifaði Vigdís á Fésbókarsíðuna sína að ónafngreindur starfsmaður í verksmiðjunni hefði tjáð sér að helsti kostur Vigdísar skilvindu væri sá að auðvelt væri að slökkva á henni en alls ekki á Vigdísi stjórnmálamanni

Á myndinni eru Halli Gísla, Vigdís skilvinda og Siggi Friðbjörns.

Vigdís Hauksdóttir er sem sagt á leið úr pólitík, Vigdís skilvinda malar áfram og Halli Gísla selur áfram mjöl.

Deila: