Frostfiskur hættir starfsemi í Þorlákshöfn

Deila:

Um fimmtíu manns missa vinnuna í Þorlákshöfn vegna ákvörðunar stjórnenda Frostfisks að hætta allri starfsemi í bænum og flytja fiskvinnsluna til höfuðborgarsvæðisins. 120 störf hafa horfið úr bænum á síðustu misserum, segir bæjarstjórinn í samtali við ruv.is

Frostfiskur er stærsti vinnuveitandi staðarins. Fyrirtækið hefur verið starfrækt í aldarfjórðung og verið í Þorlákshöfn í 19 ár en mun hætta allri starfsemi sinni í bænum um áramót. Rétt rúmt ár er síðan Frostfiskur sagði upp á fjórða tug manna. Gunnsteinn R. Ómarsson er bæjarstjóri Ölfuss. Hann segir að útgerð og fiskvinnsla hafi farið mjög hnignandi á svæðinu síðustu árin.

„Það er búið að selja héðan útgerðarfyrirtæki og veiðiheimildir á síðustu árum en þetta er svona stærsta höggið hvað varðar störf og flutning á störfum.  Á síðustu tveimur árum hefur starfsmannafjöldi Frostfisks farið úr 120 niður í þetta 50 sem eru í dag þannig að það er ýmislegt sem hefur gengið á. Það er ekki hægt að horfa framhjá þessu eins og þetta sé bara hversdagslegur hlutur að hér hverfi bara stór hluti starfa á einni nóttu á þess að nokkuð sé að gert.“

Fiskveiðistjórnunarkerfið hafi farið illa með þau fyrirtæki sem hafi verið að einbeita sér að vinnslu sjávarafurða en hafa ekki útgerð.
Hann brýnir mikilvægi þess að stjórnvöld veiti fjármangi í endurbætur á höfninni.

„Það tel ég vera, lykilþátt í atvinnuuppbyggingu hér í þessu sveitarfélagi til framtíða að hafnaraðstæður verði bættar.“
 

 

Deila: