Hagkvæmni og orkusparnaður eru lykilatriðin

Deila:

Nú þegar ísfisktogarinn Akurey AK er kominn til landsins er vert að rifja upp hluta þess sem aðalhönnuður hinna nýju ísfisktogara HB Granda hafði að segja í samtali við Þúfu þegar systurskipið Engey RE kom til landsins í ársbyrjun.

Akurey Alfreð

,,Kröfurnar voru að fækka slysagildrum, auka þægindi áhafnarinnar, auka gæði aflans og draga úr orkunotkun. Fyrir okkur var þetta tæknilegt útfærsluverkfæri og ég held að niðurstaðan sé sú að vel hafi til tekist,“ segir Alfreð Tulinius, skipaverkfræðingur og framkvæmdastjóri Nautic ehf. ,,Það er þekkt að lestarvinnan í togurum almennt hefur verið uppspretta fyrir slys, meiðsli, og/eða álagsþreytu hjá áhöfnum í gegnum tíðina. Við hönnun á skipunum var því strax lagt upp með að finna lausn sem miðaði að því að færa vinnuna upp á vinnsluþilfarið,“ segir Alfreð en að hans sögn er olíunotkun og orkubúskapur skipa mjög til umræðu um þessar mundir.

Tvennt ráði þar för. Annars vegar skipsformið og hins vegar útfærslur á vélbúnaði. Hvað varðar nýju ísfisktogarana þá er skipsformið hefðbundið að öllu leyti nema stefnislagið. Þessi skip hafa stefnislag sem við höfum nefnt Bárðarbungu og þá í höfuðið á félaga mínum og samstarfsmanni, Bárði Hafssteinssyni. Á ensku köllum við það Enduro Bow. Upphaf þess má rekja til þess að Bárður hannaði hina svokölluðu Flekkefjordtogara árið 1985. Helga María AK er eitt af þessum skipum og módelprófanir leiddu í ljós að þessi skip stæðu sig sérstaklega vel í mótbyr.“

Hvað varðar útfærslur á vélbúnaði segir Alfreð það of langt mál að telja það allt upp. ,,Mig langar þó að nefna að við vorum með óskir um að skipin öðluðust vissa ,,gervigreind“ ef það má kalla það svo. Grunnbreytan er sú hvort skipið er að toga eða hvort það er á siglingu. Við fengum framleiðandann, MAN Alpha, til að byggja inn ,,greind“ sem les í vissa upplýsingafasta svo sem hraða og hvort togspil séu í notkun, undir álagi eða ekki. Út frá þeim úrlestri ákveður ,,greind“ í vélbúnaði hvort skipið eigi að beita sjálfvirkri aflstjórn til hagkvæmni til átaka í togi, eða á grundvelli hagkvæmni fyrir siglingu. Eftir að þær upplýsingar liggja fyrir þá vinnur sjálfvirk aflstjórn vélbúnaðarins á réttum forsendum fyrir þau atriði sem skipta máli fyrir hagstæðustu niðurstöðu í orkunýtingu vélbúnaðarins s.s. snúningshraða á skrúfu, skurð á skrúfublöðum, snúningshraða á vél og álag á vélarafli.“

Deila: