Skoða útleigu aflaheimilda

Deila:

Ný ríkisstjórn mun kanna möguleika á breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Í stað ótímabundins afnotaréttar verður athugað hvort hægt verður að taka upp leigu á aflaheimildum til 33 ára. Er það hugsað til þess að fá auknar tekjur af veiðigjöldum. Einnig að miðað verði meira við afkomu fyrirtækjanna á hverjum tíma samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag.

Fulltrúar sem voru á fundi flokksráðs Sjálfstæðisflokksins og rætt var við í gærkvöldi fullyrtu þó að ekki yrði hróflað við sjálfu aflamarkskerfinu.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í gærkvöldi að í stjórnarsáttmálanum væri opnað á endurskoðun á auðlindagjaldi í sjávarútvegi og opnað á breytingar í landbúnaði. Björt Ólafsdóttir, formaður þingflokks Bjartrar framtíðar, sagði: »Sjávarútvegsmálin eru opin til túlkunar. Það eru ýmsir möguleikar þar ræddir sem verða skoðaðir, meðal annars markaðstengt gjald fyrir auðlindina. Það rúmar margt.«

Deila: