Sjálfbærni er grundvallarmál

Deila:

„Það er afar spennandi að takast á við áskoranir í loftslagsmálum. Það er stefna Brims til lengri tíma að reksturinn verði kolefnishlutlaus. Það gerum við með því að draga úr losun en líka með því að nýta losunina sem best til verðmætasköpunar.“ Þetta segir Sveinn Margeirsson, sem á síðasta ári var ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brimi hf. Hlutverk Sveins hjá fyrirtækinu er meðal annars að skapa tækifæri til verðmætaaukningar í starfsemi og nærsamfélagi Brims og leiða í framkvæmd stefnu félagsins á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og loftslagsmála. Sveinn, sem er með doktorspróf í iðnaðarverkfræði og hefur lokið stjórnunarnámi við Harvard Business School, viðurkennir að verkefnið sé hvoru tveggja krefjandi og spennandi.

Hann leggur áherslu á að þau viðfangsefni sem hann sé ráðinn til að fást við séu ekki eins manns verk. „Ég nýt samstarfs við frábært starfsfólk Brims. Við höfum þegar mótað umhverfis- og loftslagsstefnu sem leiðarljós fyrirtækisins. Eitt af mínum hlutverkum er svo að byggja upp samstarf við háskólaumhverfið,“ segir Sveinn og nefnir sem dæmi að þrír háskólanemar séu um þessar mundir að vinna meistaraverkefni í samstarfi við Brim, þar sem horft sé á möguleika til vöruþróunar og hagnýtingar gagna sem til verða í starfsemi Brims.

Sveinn lítur ekki síður á markmið fyrirtækisins þegar kemur að loftslagsmálum og nýsköpun sem samfélagsleg enda hafi ákvarðanir stórra fyrirtækja á borð við Brim mikil áhrif á umhverfi sitt og samfélagið. Eitt af stóru skrefunum sem stigið hefur verið í loftlagsmálum er rafvæðing. Sveinn bendir á að komið hefur verið upp háspennutengingum fyrir ísfiskskip félagsins á Norðurgarði í Reykjavík og stefnt sé að slíkri tengingu fyrir uppsjávarskip á komandi misserum á Vopnafirði. Þau skip sem tengjast landrafmagni drepi á vélum sínum þegar til hafnar er komið. Þannig spari þau mikla olíu og dragi úr loftmengun sem annars hefði komið til. „Landtengingar eru þannig mjög hagkvæm loftlagsaðgerð,“ segir Sveinn.

Hann segir hins vegar að stækka þurfi tengingarnar og í því samhengi sé samstarf við hafnaryfirvöld og veitufyrirtæki mikilvægt. Hann bindur vonir við að fljótlega verði hægt að koma upp tengingum fyrir uppsjávarskipin á Vopnafirði – en þar sé orkuþörfin mikil. Aðspurður segir hann að raftengingarnar dragi þegar úr olíunotkun sem nemur tugum þúsunda lítra á ári. Þegar uppsjávarskipin verði landtengd hlaupi þær sparnaðartölur á hundruðum þúsunda lítra á ársgrundvelli.

Ítarlega er rætt við Svein í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: