Brim neitar að afhenda gögn

Deila:

Brim hyggst ekki afhenda Samkeppniseftirlitinu gögn sem tengjast rannsókn þess á stjórnunar- og eignartengslum fyrirtækja í sjávarútvegi fyrr en áfýjunarnefnd samkeppnismála hefur tekið afstöðu til másins. RÚV greinir frá þessu.

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að beita Brim dagsektum, 3,5 milljónir króna á dag, til að freista þess að fá umrædd gögn.

Í samtali við RÚV segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri að ekki sé ásættanlegt að matvælaráðherra, sem sé í pólitískri stefnumótun, eins og hann orðar það, geri samning um rannsókn við stjórnvald sem býr yfir umfangsmiklu rannsóknar- og sektarvaldi.

„Þar er matvælaráðherra að greiða Samkeppniseftirlitinu, sem er með rannsóknarheimildir, peningagreiðslur til að vinna fyrir sig og getur svo stýrt greiðslum til eftirlitsins, eftir því hvort þau voru ánægð með vinnu eftirlitsins eða ekki. Þetta finnst okkur óeðlileg vinnubrögð,“ er haft eftir Guðmundi.

Í viðtali við MBL.is segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitisins, að viðbrögð Brims komi ekki á óvart. Rannsókninni sé ætlað að skapa yfirsýn og gegnsæi um stjórnunar- og eignatengsl í atvinnugreininni. „Sjálf­stæði Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins er al­veg skýrt. Hér er ekki um neina verk­töku að ræða. Sam­keppnis­eft­ir­litið ákveður að fara í rann­sókn.“

Deila: