Veiddu vænan karfa í Rósagarðinum

Deila:

Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði á miðvikudag með 106 tonn af þorski og karfa. Á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir Hjálmari Ólafi Bjarnasyni skipstjóra að aflinn hafi aðallega fengist á Papagrunni en svo hafi verið farið í karfaleit í Berufjarðarál og Lónsdýpi. Loks hafi verið haldið í Rósagarðinn, þar sem var kropp af karfa. Að endingu hafi þeir reynt fyrir sér í Berufjarðarálnum.

„Í Rósagarðinum eru fornfræg karfamið en þar hefur lítið veiðst lengi. Ég hef til dæmis aldrei verið á skipi sem reynt hefur fyrir sér þar en fréttir af karfaveiði nýverið hafa leitt til þess að menn skoða málið. Það var fínasta veður í þessum túr en þó var þung alda í Rósagarðinum. Fiskurinn sem fékkst var afar góður og við fylltum öll kör um borð þannig að komið var að landi með fullfermi,“ er haft eftir Hjálmari.

 

Deila: