Mótmæla áformum um „risalaxeldi”

Deila:

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga mótmælir harðlega áformum um risalaxeldi erlendra og innlendra fjárfesta á norskum ógeltum laxi í opnum sjókvíum hér við land. Aðalfundurinn, sem var haldinn 9.-10. júní, telur að þessi áform stefni óspilltum stofnum villtra laxafiska í voða og séu í raun aðför að viðkvæmri náttúru Íslands. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld stefni að því að einungis verði leyft sjálfbært eldi í lokuðum sjókvíum eða kerum á landi þannig að eldið skaði ekki umhverfið.

Í ályktun aðalfundarins er því haldið fram að undanfarið ár hafi tugþúsundir eldisfiska sloppið úr kvíum og gengið upp í ár, jafnvel fjarri eldisstöðvunum. „Það er því aðeins tímaspursmál þar til erfðamengun mun mælast í íslenskum laxastofnum. Fundurinn bendir á nýtt álit Erfðanefndar landbúnaðarins þar sem lagt er til að stöðvuð verði frekari útgáfa leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þar á meðal þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli.“

Í ályktuninni er vísað í reynslu Norðmanna af laxeldi í sjókvíum sem hafi leitt í ljós „endalausa baráttu við smitsjúkdóma, erfðablöndun við villta laxastofna og lúsafaraldur sem ógnar líffræðilegum fjölbreytileika.

„Sömu aðstæður hafa komið upp við Íslandsstrendur þar sem slátra hefur þurft hundruðum þúsunda fiska. Allar fullyrðingar um að ekki mundi koma upp lúsasýkingar í eldinu hafa reynst rangar. Vegna umfangs sýkinganna hafa verði veitt leyfi til losunar lúsaeiturs í eldiskvíar á Arnarfirði. Slíkt eitur hefur alvarleg áhrif á annað lífríki,“ segir í ályktun aðalfundar Landssambands veiðifélaga.

Frétt og mynd af bb.is

Deila: