Að læra hvað ber að forðast

Deila:

Útganga Breta úr Evrópusambandinu mun gefa þeim tækifæri til að stjórna fiskveiðum sínum á annan hátt en verið hefur. Hún mun gera þeim kleift að byggja upp eigin fiskveiðistefnu samfara því að draga lærdóm  af aðild sinni að hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB, fyrst og fremst til að vita hvaða leiðir á að forðast.

Þetta er skoðun Landssamtaka útvegsmanna á Bretlandseyjum, National Federation of Fishermen‘s Organisations (NFFO). Samtökin eru skipuð félögum á Englandi, Wales og Norður-Írlandi og er það skoðun þeirra að Bretland fari að dæmi þjóða utan ESB sem hafa þróað fiskveiðistjórnun sína með öðrum hætti. Þó engar þjóðir séu nefndar er öllum ljóst að átt er við Ísland og Noreg.

Samtökin leggja einnig áherslu á að hið opinbera einfaldi lög og reglugerðir um fiskveiðar og dragi úr þeirri byrði sem það farg leggur á herðar útvegsins og taki upp samþætta fiskveiðistjórnun með minna skrifræði og kostnaði.

Þessu sé unnt að ná fram með því að hverfa frá fyrirframákveðinni heimótta stjórnun og leggja áhersluna á afrakstur og árangur, sérstaklega en ekki endilega í ljósi tæknilegra verndaraðgerða.

Samtökin sjá fyrir sér tvíþætta fiskveiðistjórnun eftir útgönguna úr ESB; gerð og framkvæmd reglna breskra stjórnvalda sem muni ná yfir allar veiðar skipa innan bresku landhelginnar. Þessi fiskveiðistjórnun myndi ná jafnt yfir bæði veiðar breskra skipa og skipa utan Bretlands. Reglur byggðar á sjálfbærni myndi verða hin augljósa leið.

Þegar komi að sameiginlegum fiskistofnum væri það ákjósanlegt að setja upp sameiginlega nefnd til að ákveða sameiginleg nýtingarmörk, aflahlutdeild, skipulag á aðgengi og nýtingarstefnu til langs tíma.

„Við sjáum fyrir okkur að Bretland muni hafa mun meira frjálsræði til aðgerða utan ESB en innan þess til að móta og framkvæma viðeigandi fiskveiðistjórnun sem nær yfir tæknilegar reglur um nýtingu auðlindarinnar, stjórnun stærðar fiskiskipaflotans, sóknargetu, brottkast og markaðsmál,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

 

Deila: