Endurvigtun strandveiðiafla verði óheimil

Deila:

„Til að auðvelda framkvæmd og eftirlit með því að veiðar fari ekki um of fram úr ráðstöfuðu aflamagni hvers mánaðar leggur Fiskistofa til að óheimilt verði að endurvigta afla sem veiddur er á strandveiðum, enda er ekki þörffyrir að ísa þann afla umfram 3% í ljósi þess að veiðiferðir
eiga ekki að fara umfram 14 tíma. Ef 60% afla er sendur til endurvigtunar er ljóst að það verður nær ógerlegt að loka svæðum fyrr en ofmikið hefur veiðst.”

Þetta kemur fram í umsögn Fiskistofu til atvinnuveganefndar vegna frumvarps matvælaráðherra um svæðaskiptingar strandveiða. Strandveiðisjómenn bíða í ofvæni eftir reglugerð ráðherra um strandveiðar 2023. Ekki liggur fyrir hvort frumvarp um svæðaskiptingu strandveiða verði afgreitt í tæka tíð fyrir upphaf strandveiða, sem er 2. maí.

Fiskistofa bendir á að stofnunin þurfi að stöðva veiðar þegar ákveðnum hámarksafla í hverjum mánuði er náð. Endurvigtun, sem oft fari fram nokkrum dögum eftir löndun, torveldi þá útreikninga. Þá gerir stofnunin ráð fyrir að þurfa að ráða manneskju til sumarstarfs til að sinna þessum útreikningum.

Deila: