Nítjándi krókurinn náði honum

Deila:

Óvenjuleg sjón blasti við starfsmönnum Gjögurs hf. í Grindavík nú í vikunni, þegar verið var að slægja þorsk úr afla línubátsins Daðeyjar GK. Úr átta kílóa þorski komu 18 bitar af beitu. Sá guli hefur því verið búinn að tína vel af beitu af önglunum, áður en honum brást bogalistin og nítjándi krókurinn náði honum.

Þórarinn Ólafsson, verkstjóri hjá Gjögri, segir að á löngum tíma sínum í fiskvinnslu hafi hann ekki séð svona lagað áður. Gjögur er nú að slægja fisk úr Afla Daðeyjar og salta afskurð og þunnildi frá Vísi í verktöku. Þá hausa þeir þorsk, keilu og löngu sem send er fersk í gámum til Þýskalands. Það verkefni stendur fram til fyrsta júní og hefur verið mikið að gera að sögn Þórarins.

Deila: