Sjávarútvegurinn skattlagður langt umfram aðrar atvinnugreinar

Deila:

Hér á eftir fer ræða sem Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar hf., flutti á aðalfundi félagsins sl. miðvikudag. Í ræðunni tekur hann meðal annars skýr dæmi um það hvernig íslenskur sjávarútvegur er skattlagður umfram aðrar atvinnugreinar. Ræðan er hér birt í heild sinni.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.

Ágætu hluthafar og gestir.

Rekstur Síldarvinnslunnar gekk ágætlega á síðasta ári. Veiðar og vinnsla gengu vel og var meira veitt á síðasta ári en árið áður þrátt fyrir verkfall fyrstu tvo mánuði ársins. Þrátt fyrir meiri afla voru verðmæti minni en árið áður og sýnir það e.t.v. hversu hratt aðstæður geta breyst í sjávarútvegi og í raun í hversu síbreytilegu umhverfi við störfum. Fyrirtæki þurfa því að vera í stakk búin til að bregðast við slíkum breytingum. Það hefur Síldarvinnslan gert með því að nýta góð skilyrði undanfarinna ára til að fjárfesta í innviðum og framleiðslutækjum. Uppbygging landvinnslu undanfarin ár og fjárfestingar í uppsjávarskipum eru að skila sér. Á síðasta aðalfundi gáfum við út að ráðist yrði í endurnýjun bolfisktogaranna. Fyrstu skrefin hafa verið tekin með samkomulagi við VARD Aukra skipasmíðastöðina í Noregi um smíði tveggja 29 metra togara sem verða með heimahöfn í Vestmannaeyjum.

Síldarvinnslan fer hins vegar ekki varhluta af breytingum í rekstrarumhverfinu frekar en önnur fyrirtæki í útflutningi. Breytingar á gengi íslensku krónunnar, hækkun sumra kostnaðarliða og sveiflur í afurðarverðum úti í heimi er erfitt að stjórna og hafa áhrif á. Aftur á móti eru aðrar breytingar í umhverfi okkar sem við Íslendingar höfum stjórn á. Dæmi um það er þróun kostnaðar við eftirlitsmenn um borð í frystiskipum. Árið 2015 var kostnaður við eftirlitsmann um borð í frystiskipi 30.000 kr. á dag en er nú um 84.000 kr. á dag. Þetta er hækkun upp á 270% á tveimur árum.

Annað dæmi eru veiðigjöldin. Á fyrstu fjórum mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs greiddi Síldarvinnslan 250 milljónir króna í veiðigjöld. Þetta eru þrjár og hálf milljón á hverjum virkum degi en ef horft er á Norðausturkjördæmi allt eru það 15 milljónir hvern virkan dag. Veiðigjöldin taka ekki mið af aðstæðum í umhverfi okkar í dag heldur þegar aðstæður voru allt aðrar og betri. Til samanburðar borgar Orkuveita Reykjavíkur engin gjöld þrátt fyrir afnot af vatnsauðlindum en hagnaður hennar á síðasta ári nam 16,3 milljörðum króna. Í þessu sambandi má einnig nefna að húshitunarkostnaður er mjög breytilegur eins og alkunna er, en hluti landsmanna á kost á að kynda með heitu vatni sem óneitanlega er sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Í Neskaupstað kostar til dæmis tvöfalt meira að kynda 140 fermetra hús en í Reykjavík.

Þriðja dæmið sem ég vil taka eru kolefnisgjöld. Síldarvinnslan greiddi 172 milljónir í kolefnisgjöld á síðasta ári. Til stendur að hækka gjaldið um 50%. Samkeppnisaðilar okkar í nágrannalöndunum og annars staðar í heiminum búa ekki við viðlíka skilyrði. Í raun er kolefnisgjaldið ekkert annað en skattur, enda er það greitt þó skipin séu að veiðum á alþjóðlegu hafsvæði eða í lögsögum annarra ríkja. Eins ber að nefna að flutningaskip og skemmtiferðaskip greiða ekkert kolefnisgjald því þau taka ekki olíu á Íslandi og eins greiða flugfélög nánast ekkert kolefnisgjald til íslenska ríkisins. Þá má einnig nefna að vinnuvélar og tæki sem nota svokallaða litaða olíu greiða ekki kolefnisgjald. Á þessu sést að kolefnisgjaldið er alls ekki gjald sem sett er á vegna mengunar í íslenskri lögsögu heldur skattur sem kemur langþyngst niður á sjávarútvegnum.

Fjórða dæmið eru stimpilgjöld. Þegar Beitir var keyptur þurfti að greiða yfir 80 milljónir króna í stimpilgjöld. Það þarf hins vegar engin slík gjöld að greiða af flugvél sem keypt er til landsins, ekki heldur af flutningaskipum íslenskra skipafélaga, sem eru reyndar öll skráð erlendis, eða af vinnuvélum eða virkjunum. Hér hafa fiskiskipin algera sérstöðu og öll önnur atvinnutæki eru undanþegin stimpilgjöldum.

Fyrir utan allt það sem kemur fram í fyrrgreindri upptalningu veitir fyrirtæki eins og Síldarvinnslan mörgum atvinnu og skapar störf sem mörg hver eru vel launuð og eftirsótt. Þá kaupir Síldarvinnslan þjónustu af mörgum fyrirtækjum og hefur rutt brautina fyrir tæknifyrirtæki sem til dæmis hafa þróað búnað fyrir sjávarútveginn, fyrst á Íslandi og sem síðan hefur orðið að útflutningsvöru með afar jákvæðum áhrifum. Margfeldisáhrif fyrirtækja eins og Síldarvinnslunnar eru ótvíræð. Þrátt fyrir þetta verður að viðurkennast að sátt um greinina er vart til staðar þó hún sé skattlögð langt umfram aðrar atvinnugreinar. Þá ber að hafa í huga að íslenskur sjávarútvegur er í samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða en erlendis finnst engin hliðstæða hvað álögur varðar. Vonandi fær íslenskur sjávarútvegur að dafna í framtíðinni og njóta sannmælis sem atvinnugrein.

Það er staðreynd að utan fjármálafyrirtækja og opinberra aðila eru fjögur sjávarútvegsfyrirtæki hæstu skattgreiðendur landsins ásamt Icelandair og Síldarvinnslan er í þeim hópi.

Góðir fundarmenn.

Á síðasta ári var haldið upp á 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar með ýmsum hætti. Það var einstaklega ánægjulegt að njóta afmælishátíðarinnar í Póllandi og eins fengum við í hendur glæsilegt afmælisrit um sögu fyrirtækisins. Saga Síldarvinnslunnar er einstök  vegna þess hve fyrirtækið hefur varðveitt hana vel og gert hana öllum aðgengilega. Ég vil nota tækifærið og þakka Smára Geirssyni en hann hefur unnið sannkallað þrekvirki í upplýsingaöflun, skrifum og söfnun mynda. Þakka ég honum heilshugar fyrir hans mikla starf og fyrir þetta einstaklega glæsilega verk.

Að lokum vil ég þakka stjórnendum, starfsfólki og stjórnarmönnum samstarfið á liðnu starfsári. Við getum verið stolt af þeim árangri sem Síldarvinnslan hefur náð og ég veit að Síldarvinnslan hefur á að skipa góðu starfsfólki sem mun ráða vel við þær áskoranir sem framundan eru.

 

Deila: