Nóg af loðnu enn á miðunum
Hoffell hefur nú lokið við að veiða allan loðnukvótann, samtals 8.600 tonn. Skipið er á heimleið með 900 tonn sem var síðasti skammturinn til að fylla uppí kvótann. Að sögn Bergs Einarssonar skipstjóra í samtali á heimasíðu Loðnuvinnslunnar, var aflinn veiddur í Hrútafjarðarál, sem eru ekki algeng mið fyrir loðnuveiðar, frekar sjaldgæf reyndar.
Loðnan er falleg, u.þ.b. 65 % hrygnur og fer öll til hrognatöku hjá Loðnuvinnslunni. Aðspurður sagði Bergur að veiðin hefði gengið mjög vel, spegilslétt haf, sól og blíða. Og þegar hann var inntur eftir ástandi á loðnumiðunum svaraði hann því til að það væri „skömm að þessi vertíð væri búin, því nóg væri af loðnu á miðunum enn“.
En næg eru verkefnin fyrir Hoffell. Nú þegar loðnuvertíðin er yfirstaðin verður farið í að skipta um veiðafæri á skipinu, nótinni sem loðnan er veidd í er skipt út fyrir flottroll til þess að veiða Kolmunna sem, ef að líkum lætur, mun fylla lestir Hoffellsins áður en langt um líður.