Glitur hafsins prýðir gaflinn
“Glitur hafsins” verk Söru Riel bar sigur úr býtum í samkeppni um nýtt útilistaverk á austurgafl Sjávarútvegshússins sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið efndi til í samstarfi við Samband Íslenskra myndlistarmanna (SÍM) í nóvember á síðasta ári. Kallað var eftir tillögum að verki með skírskotun í sögu sjávarútvegs á Íslandi. Auk listrænna gæða var lögð var áhersla á að verkið taki tillit til umhverfisins, falli vel að svæðinu og þoli íslenska veðráttu. Um er að ræða tímabundið verk sem mun prýða austurgafl hússins í að minnsta kosti þrjú ár.
Yfirlit yfir allar tillögur í samkeppninni
Það var einróma niðurstaða dómnefndar að velja verk Söru Riel sem gekk undir nafninu „Glitur hafsins“. Nafngiftin kemur reyndar ekki frá höfundi heldur lýsingu höfundar á hugmynd sinni „þarna bregður fyrir eða mótar fyrir fiski og hval, neti og öldum en allt er þetta samofið í eitt form sem umvefur sjálft sig og skapar eitthvað nýtt og óráðið. Formið er á hreyfingu, virðist skjótast upp úr jörðinni eða hafinu í átt að himninum, í átt að framtíðinni. Á efri part myndar eru litlir speglar bróderaðir inn í myndefnið. Speglarnir munu grípa ljósið og gefa verkinu tilbreytingu, endurvarpa umhverfinu og skjóta ljósgeislum því sólin skín beint á efri part gaflsins á ákveðnum tíma dags. Ljósgeislarnir vísa beint í glitur hafsins, í glerhjúp Hörpu en einnig vonarneistana sem við leitum að til að halda áfram að þróast og þroskast.“
Í umsögn dómnefndar segir „Verkið hefur þannig eiginleika að vaxa við nánari kynni, það leynir á sér og gæti vakið veruleg hugrif við rétt skilyrði við leik ljóssins og nánasta umhverfis. Það dansar á milli raunveruleika og ímyndunarafls og gefur þannig áhorfendum tækifæri til að túlka á mismunandi hátt hvað þeir sjá og skilja. Það er eitt af einkennum góðra listaverka. Við teljum að verkið falli vel að umhverfi sínu og tali til þess og að það hafi rómantíska skírskotun til sögu sjávarútvegs á Íslandi.“
Sara Riel er fædd árið 1980 og búsett í Reykjavík. Hún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og Kunsthochschule Berlin- Weissensee á árinum 2000-2006. Sara hefur vakið verðskuldaða athygli síðustu árin fyrir myndlist sína og útilistaverk, ekki síst fyrir verkið Fjöðrin sem prýðir fjölbýlishús við Asparfell í Breiðholti.
Um samkeppnina giltu samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Tuttugu og fimm tillögur bárust í samkeppnina sem var opin öllum skapandi einstaklingum og hópum. Þrjár tillögur voru metnar ógildar og ein tillaga var dregin tilbaka af höfundi.
Í dómnefnd sátu Guðmundur Oddur Magnússon, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands og formaður dómnefndar, Gunnar Lárus Hjálmarsson, tónlistarmaður, Vera Líndal Guðnadóttir, mannfræðingur auk myndlistarmannanna Elínar Hansdóttur og Unndórs Egils Jónssonar. Trúnaðarmaður í samkeppninni var Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.