Mjög ánægður með Hemmer botntrollin

Deila:

,,Ég get ekki verið annað en ánægður með árangurinn eftir að skipt var yfir í Hemmer botntroll. Ég hafði góða reynslu af notkun trolls sem heitir Seastar, og byrjaði með það og eitt Hemmertroll eftir að við fengum nýja skipið.

Það kom fljótlega á daginn að Hemmertrollið þarfnaðist miklu minna viðhalds. Þá kom í ljós að gegnumflæðið var betra, ánetjun var hverfandi og trollið var mun léttara í drætti og fiskaði ekki minna en Seastartrollið. Nú notum við tvö Hemmertroll með tilheyrandi olíusparnaði.“

Magnús Ríkharðsson í Brúnni á Breka.

Þetta segir Magnús Ríkharðsson, skipstjóri á Breka VE í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar. Þessi nýi ísfisktogari kom til landsins 20. júlí sl. Togarinn er útbúinn með þremur Ibercia togvindum og stýribúnaði fyrir vindurnar frá Naust Marine. Hann er hannaður til að veiða með tveimur trollum samtímis. Hemmertrollin, sem Magnús og áhöfn Breka nota, eru frá Fjarðaneti á Akureyri en um hönnun þeirra sá Hermann Guðmundsson netagerðarmeistari.

Magnús var í rúman aldarfjórðung skipstjóri á Drangavík VE og hann segir það hafa verið töluverð viðbrigði að taka við nýja skipinu.

,,Allt var stærra í sniðum en ég var vanur. Þá hafði ég enga reynslu í að veiða bolfisk með tveimur trollum samtímis en ég bjó þó að þeirri reynslu að við höfðum veitt humar í tvö troll á Drangavíkinni um árabil þótt togvindurnar væru bara tvær. Við notuðum grandaravindu á miðjuvírinn og það fyrirkomulag gafst okkur vel,“ segir Magnús sem upplýsir að honum hafi strax litist vel á Hemmertrollið og þótt sjálfsagt að reyna það með Seastartrollinu. Reynslan hafi svo leitt til þess að ákveðið var að skipta alfarið yfir í Hemmer.

Einu var ekki breytt varðandi veiðar nýja skipsins. Magnús notar Thyboron botntrollshlera og er hvor um sig 7,26 fermetrar og 3.500 kíló að þyngd. Hlerarnir eru af gerðinni Type 12. Magnús segist vera mjög ánægður með þessa hlera og sjái ekki ástæðu til að skipta yfir í flottrollshlera eins og svo margir hafa gert á bolfiskveiðum.

,,Þegar togað er með tveimur trollum samtímis þá notum við fimm tonna lóð á miðvírinn. Þumalfingursreglan á veiðum sem þessum er að lóðið sé um 70% af samanlagðri hleraþyngd. Lengd milli hlera getur verið 120 til 130 metrar þegar komið er niður á togdýpið. Ég nota 90 metra langa grandara og þar af eru fyrstu 50 metrarnir við trollið tvöfaldir. Höfuðlínuhæðin er mikil um fimm til sex metrar.“

En hvers vegna er togað með tveimur trollum samtímis og gefur þessi aðferð meiri afla á togtíma af ákveðnum fisktegundum?

,,Reynslan sýnir að aflaaukningin er mest á karfaveiðum eða upp í rúmlega 50% miðað við veiðar með einu trolli. Í þorski, ýsu og ufsa erum við að sjá 30-40% aflaaukningu. Þetta skiptir okkur miklu máli. Við erum í fimm daga veiðiferðum. Byrjum oft í karfa fyrir sunnan og verðum svo að fara á Vestfjarðamið eftir þorskinum. Af þessum fimm dögum náum við e.t.v. þremur sólarhringum á veiðum. Við erum yfirleitt með um 140 til 150 tonna afla í hverri veiðiferð og það verður að teljast gott miðað við eiginlegan veiðitíma,“ segir Magnús.

Að sögn Magnúsar ræður veður og sjólag mestu um hvort togað er með tveimur trollum.

,,Þetta er alltaf matsatriði en öryggi skipverja gengur fyrir. Það segir sig sjálft að flækjustigið er meira ef notuð eru tvö troll samtímis í stað eins. Ef sjólag er slæmt eykst þetta flækjustig og þá er best að láta skynsemina ráða,“ segir Magnús Ríkharðsson.

 

Deila: