Þroskinn skiptir öllu máli
,,Það er búin að vera þokkalegasta veiði en það er langt því frá auðvelt að eiga við loðnuna. Það finnast góðar torfur en á milli þess er siglt um og leitað. Nú snýst allt um þroska loðnuhrognanna en það virðist ekki algilt að þroskinn sé mestur í þeirri loðnu sem nyrst er komin í göngunni. Þetta hefur komið mönnum á óvart en margir hafa beðið eftir því að hefja lokasprettinn á loðnuvertíðinni þar til að loðnan væri komin á ákveðnar slóðir.“
Þetta segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, en er rætt var við hann á heimasíðu HB Granda upp úr hádeginu í gær var skipið statt í Faxaflóa, rúmar 50 mílur vestur af Akranesi. Verið var að ljúka öðru kasti dagsins en fyrir það var aflinn kominn í um 930 tonn.
,,Við erum í þriðja loðnuhrognatúrnum. Vorum komnir á miðin um hádegisbil í gær og náðum tveimur köstum fyrir kvöldið. Venus er í höfn á Akranesi eftir að hafa tilkynnt um 1.800 tonna afla og það væri gott að ná 1.700 tonnum áður en við förum inn.
,,Það er dálítið skrítið ástandið á loðnunni. Hún er í stöku torfum og svo er ekkert þess á milli. Það var verið að veiða úr stórri torfu vestur af Snæfellsjökli í gær en þar var afskaplega þröngt og erfitt að athafna sig. Það komst eitt skip að í einu og tók sitt kast og svo kom það næsta.“
Að sögn Alberts eru nú allir að leita að sem mestum hrognaþroska. Í síðustu veiðiferð Víkings var hrognaþroskinn 90% en 80% í veiðiferðinni þar á undan. Sem fyrr segir er það engin ávísun á hæstan þroska að veiða þá loðnu sem virðist vera fremst í göngunni.
,,Það styttist verulega í þessu hjá okkur. Eitthvað af loðnunni er byrjað að hrygna og hrognafyllingin framarlega í göngunni er 25-27%. Það fréttist af torfu við Reykjanes í gær og vonandi á eitthvað af loðnu eftir að skila sér vestur með suðurströndinni,“ segir Albert Sveinsson.
Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs HB Granda, segir að teknu tilliti til þess afla sem kominn sé að landi séu eftirstöðvar loðnukvótans rúmlega 4.000 tonn.
,,Ef allt gengur að óskum verða næstu veiðiferðir skipanna þær síðustu á þessari loðnuvertíð. Í framhaldinu munu skipin halda til kolmunnaveiða en góð veiði hefur verið undanfarið á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi,“ segir Garðar Svavarsson.