Hvar voru hvalirnir á loðnuvertíðinni?

Deila:

Á loðnuvertíðum síðustu ára hafa hvalir valdið veiðiskipunum miklum vandræðum. Hvalamergð hefur fylgt loðnugöngunum og hvað eftir annað hafa skipin lent í veiðarfæratjóni vegna hvala. Á nýliðinni vertíð var hins vegar annað uppi á teningnum; hvalir voru sjaldséðir og úti fyrir suðurströndinni og fyrir vestan land sáust nánast engir hvalir. Undir lok vertíðar fréttist eitthvað af hvölum úti fyrir Húnaflóa og Vestfjörðum en fjöldi þeirra var hverfandi miðað við síðustu ár. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Geirs Zoёga skipstjóra á Polar Amaroq og spurði hann hvort þeir á Polar hefðu veitt þessari breytingu athygli, en Polar Amaroq var við loðnuleit í janúar sl. og í byrjun febrúar auk þess að stunda veiðar á vertíðinni. Geir sagði að breytingin hvað þetta varðar hefði verið sláandi.

„Þegar við vorum að leita fyrir norðan land núna í byrjun árs sáum við einn og einn hval en á undanförnum vertíðum hefur hvalafjöldinn á þeim slóðum verið ótrúlega mikill. Þegar komið var suður fyrir Langanes sást varla nokkur hvalur núna á vertíðinni. Ég man að við sáum hvali við Skrúð og síðan aftur við Stokksnes en þeir voru sárafáir. Það voru hnúfubakar sem þarna sáust. Eftir það sáum við engan hval, sem er mikil breyting frá síðustu vertíðum en þá hefur hvalurinn fylgt loðnunni alveg inn í Faxaflóa.

Á síðustu vertíðum hefur verið gnótt hvala og menn hafa fundið loðnu með því að fylgjast með hvalagegnd. Hvalafjöldinn var stundum ótrúlegur – menn hafa geta talið hundruð hvala samtímis og hafflöturinn hefur verið eins og gríðarstórt hverasvæði vegna hvalablástursins. Á næturnar höfum við síðan heyrt í þeim. Það heyrast drunur þegar þeir blása sem enda síðan í einskonar hvissi. Á undanförnum vertíðum hafa menn þurft að gæta sín mjög þegar kastað er á loðnuna því það er grafalvarlegt að fá hnúfubak í nótina. Og ég man eftir því að á vertíðinni 2013 fengum við einu sinni hvorki fleiri né færri en fimm hnúfubaka í nótina. Það var svo sannarlega slæmt mál. Núna velta menn því fyrir sér hvað hefur breyst. Hvar hélt hvalurinn sig á nýliðinni loðnuvertíð ? Er unnt að finna einhverjar skynsamlegar skýringar á því hvers vegna hann fylgdi ekki meginloðnugöngunni eins og hann hefur gert í svo ríkum mæli síðustu ár ?,“spurði Geir Zoёga að lokum.

Heimasíðan hafði samband við Dr. Gísla Víkingsson hvalasérfræðing á Hafrannsóknastofnun og bað hann að svara þeim spurningum sem Geir Zoёga varpaði fram hér að framan. Gísli sagði mjög athyglisvert hve breytingin væri mikil hvað varðaði fjölda hvala á loðnumiðunum. Miðað við lýsingar væri breytingin mjög afgerandi.

„Það er erfitt að segja til um hvað gæti valdið þessu. Haustið 2015 fór fram hvalatalning á loðnumiðum samhliða mælingum á stærð loðnustofnsins. Niðurstöður hennar voru að á svæðinu hefðu verið um 7 þúsund hnúfubakar auk um 5 þúsund langreyða. Í sambærilegum talningum haustið 2016 fannst mun minni loðna, og veður hamlaði mjög hvalatalningum. Þar sem loðnu var að finna virtist þó þéttleiki hvala vera svipaður og haustið áður. Hvalurinn var í stærri hópum og ekki eins dreifður og 2015. Ekki voru taldir hvalir í loðnuleiðöngrum í janúar og febrúar 2017, en starfsmenn Hafrannsóknastofnunar höfðu þó heyrt frá loðnusjómönnum að minni hvalur væri á loðnumiðunum en undanfarin ár. Hugsanlega hefur hnúfubakurinn fundið loðnu eða aðra fæðu utan hefðbundinna svæða en án frekari upplýsinga er einungis hægt að geta sér til um ástæðurnar. Hvalatalningar að vetrarlagi eru erfiðar vegna myrkurs og veðurlags, en gervitunglamerkingar gætu varpað ljósi á ferðir hvalanna á þessum árstíma,“ sagði Gísli.
 

Deila: